138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að segja mörg orð um ræðu síðasta þingmanns, enda hefur hann þegar sannað gildi sitt í þinginu. Ræða hæstv. forsætisráðherra áðan var hins vegar með stökustu ólíkindum. Ég hef aldrei nokkurn tímann vitað aðra eins ræðu frá íslenskum forsætisráðherra. En þetta segir allt sem segja þarf um þá stöðu sem Samfylkingin er komin í, ekki bara í þessu máli, heldur við stjórn landsins, að forsætisráðherra sér þau vopn helst til að verja sjálfa sig í þeirri ömurlegu stöðu sem hæstv. ráðherrann er komin í að lesa upp blogg, liggja á netinu og finna blogg og eflaust getur [Háreysti í salnum.] hæstv. forsætisráðherra fundið miklu fleiri bloggsíður milli þess sem ráðherrann kommentar hugsanlega sjálf á Eyjunni.

Allar fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra eru annaðhvort misvísandi eða beinlínis rangar. Forsætisráðherrann virðist hafa upplýsingar sínar helst úr bloggheimum og Fréttablaðinu og væntanlega frá aðstoðarmanni sínum sem er virkur á þeim miðlum. Fullyrðingar eins og þær að umrædd tilboð hafi ekki verið af neinni alvöru eru augljóslega rangar eins og komið hefur fram í norskum fjölmiðlum. Forsætisráðherra ætti kannski frekar að lesa norska fjölmiðla en þá íslensku í þessu máli. Sérstaklega var hjákátlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra halda því fram að vegna þess að fulltrúi miðflokksins í fjárlaganefnd hefði á sínum tíma samþykkt að fara þá leið að lána Íslendingum í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mætti hann ekki skipta um skoðun. Þetta segir allt sem segja þarf um það hugarfar sem er ríkjandi hjá þessari ríkisstjórn. Það er enginn vilji til að leita nýrra leiða. Og þegar aðrir koma með hugmyndir eða reyna að bæta úr er það skotið niður. Við skulum hafa það í huga að háttvirtur fulltrúi miðflokksins í fjárlaganefnd norska þingsins bókaði það einmitt á sínum tíma, þar sem hann var umsjónarmaður lánsins til Íslands, að ef fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sú leið dygði ekki ætti að fara í tvíhliða viðræður við Íslendinga, (Forseti hringir.) tvíhliða viðræður sem hæstv. forsætisráðherra Íslands drap með einum ömurlegasta tölvupósti Íslandssögunnar.