138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[11:48]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

Á sumarþinginu tefldu sjálfstæðismenn fram sambærilegri tillögu, þ.e. tillögu um bráðaaðgerðir vegna ástands efnahagsmála, þar sem farið var yfir nauðsynlegar aðgerðir á hinum ýmsu sviðum, bæði vegna peningamála, skuldastöðu heimilanna, alvarlegs ástands í atvinnustarfsemi í landinu og ríkisfjármála og annarra mikilvægustu þátta efnahagslífsins. Þetta gerum við nú að nýju með auknum áherslum á þau atriði sem eftir sumarmánuðina brenna enn heitar á okkur en áður.

Ég vil byrja á því að segja að mestu vonbrigðin sem við höfum orðið fyrir undanfarna mánuði eru þau að innan nokkurra vikna frá því við tefldum fram efnahagstillögum okkar var gerður stöðugleikasáttmáli milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem fjallað var um ýmsar aðgerðir. Í þessum tillögum okkar nú teflum við fram sérstöku fylgiskjali, minnisblaði sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum um verklegar framkvæmdir sem samkomulag var um að ráðast þyrfti í. Vonbrigðin lýsa sér í því að frá þessum tíma hefur hvorki gengið né rekið í því að ýta á eftir þeim nauðsynlegu aðgerðum sem þar er fjallað um. Það vill þannig til að í stöðugleikasáttmálanum er fjallað um ýmis atriði sem við höfum áður bent á að væri mikilvægt að grípa til en ekkert hefur orðið úr. Auðvitað er auðveldast að benda þar á verklegar framkvæmdir og það loforð ríkisstjórnarinnar að ryðja úr vegi hindrunum fyrir nýfjárfestingum eins og frægt er orðið. Frægt er orðið að ríkisstjórnin hefur svikið það loforð og gert einmitt þveröfugt; komið upp nýjum hindrunum í stað þess að ryðja úr vegi því sem í vegi stóð fyrir framkvæmdum.

Hvert er megininntak þessara tillagna? Þeim er teflt fram sem valkosti við leið ríkisstjórnarinnar í efnahagsaðgerðum. Skoðum aðeins stóru myndina. Hún er sú að við þurfum að skera niður, ekki satt? Það þarf að draga saman ríkisútgjöld. Ég held því fram að við höfum fullt svigrúm til þess að gera það. Það þýðir ekki að það verði auðvelt. Það er aldrei létt verk að skera niður útgjöld sem áður hefur verið tekin ákvörðun um að efna til. Það er samt hægt, það sýna tölulegar staðreyndir. Við sjáum það t.d. af því hvernig útgjöld ríkisins á mann í þessu landi hafa þróast undanfarin ár. Þá sjáum við að í fjárlagafrumvarpinu er verið að draga saman útgjöldin þannig að þau verði sambærileg við það sem var hér á árunum 2003, 2004 og 2005. Þetta segir mér að við höfum svigrúm til þess að draga saman ríkisútgjöldin.

Með þessum tillögum erum við ekki að búa til stóran ágreining um umfang niðurskurðarins eins og ríkisstjórnin kynnir hann til sögunnar. Við leggjum bara áherslu á að það þarf að tryggja hámarkshagræðingu í ríkisrekstrinum og það er ekki hægt að bíða með aðgerðir eins og ríkisstjórnin virðist gera. Maður hefur miklar áhyggjur af því að á yfirstandandi ári sé ekki verið að standast fjárlög og grípa til nauðsynlegra aðhalds- og sparnaðaraðgerða en fyrst og fremst þarf að tryggja að við náum hámarkshagræðingu. Hvers vegna? Jú, til þess að við getum haldið uppi áfram sama þjónustustigi. Til þess að niðurskurðurinn bitni ekki beint á þjónustunni á meðan yfirstjórnendur halda öllu sínu. Þannig eigum við ekki að grípa til aðhaldsaðgerða í ríkisrekstri. Sem sagt, hvað varðar umfang niðurskurðarins er ekki verið að búa til stóran ágreining við ríkisstjórnina.

Þá skulum við skoða tekjuhliðina. Ríkisstjórnin hefur talað um að hér þurfi að fara blandaða leið, þ.e. leið skattahækkana annars vegar og niðurskurðar hins vegar. Það er meginatriði í tillögum okkar sjálfstæðismanna að við höfnum þeirri hugmynd ríkisstjórnarinnar, þeirri hugsanavillu að tekjur ríkisins verði ekki auknar nema með nýjum sköttum og nýjum álögum á einstaklinga og fyrirtæki. Þeirri aðferðafræði höfnum við. Við teljum reyndar að það sé stórhættulegt að koma með miklar skattahækkanir á sama tíma og gripið er til jafnmikilla niðurskurðaraðgerða eins og hér er verið að gera og nauðsynlegt er. Þetta ætti að vera tiltölulega augljóst. Sjáið t.d. hvað er að gerast í Bretlandi svo við leyfum okkur að líta aðeins út fyrir landsteinana og horfa til ríkja sem eru með sama vandamál og við, þ.e. halla á ríkisrekstrinum. Þar deila flokkarnir ekki um hvaða skatta eigi að kynna til sögunnar heldur keppast um það hvor býður betur í niðurskurðaráætlunum. Nú síðast kom Íhaldsflokkurinn í Bretlandi fram og yfirbauð Verkamannaflokkinn í því hversu mikinn niðurskurð hann ætlaði að boða. Þar eru kosningar á næsta ári, samt kemur flokkur fram sem margir spá að taki við og yfirbýður ríkisstjórnina í niðurskurðarplönum. Hvorugur flokkurinn talar um að koma með nýja skatta.

Hvað mundu menn gera í sínu heimilisbókhaldi? Hvað ætli Norðmenn gerðu ef þeir væru með halla á sínum fjárlögum? Ætli menn mundu ekki líta til þess hvort þeir ættu einhvers staðar sjóði sem hægt væri að grípa til þannig að menn þyrftu ekki að ganga svo á ráðstöfunartekjur sínar að það bættist ofan á, eins og í okkar tilviki, þá kaupmáttarrýrnun sem átt hefur sér stað og erfiðleika vegna skuldsetningar sem við horfum fram á bæði í atvinnulífi og hjá heimilunum í landinu? Ég er nú hræddur um það.

Við vekjum athygli á þessu. Tekjur ríkisins má auka að nýju með tvennum hætti fyrst og fremst. Annars vegar með því að tryggja aðgerðir sem munu efla skattstofnana, koma atvinnulífinu aftur af stað og tryggja að ný störf verði til. Nokkur þúsund ný störf stórbæta afkomu ríkissjóðs. Skoðum atvinnuleysið í heild sinni. Ef okkur tækist að skapa 20 þús. ný störf mundi afkoma ríkisins batna um 60 milljarða ef allt er tekið með. Ekki bara í nýjum sköttum frá einstaklingunum heldur vegna þess að við mundum spara okkur alls konar félagslegar bætur, atvinnuleysisbætur, og veltuáhrifin mundu á endanum skila ríkinu þetta miklum afkomubata. Áherslan hlýtur því að vera á að skapa ný störf sem auka verðmætaframleiðslu í landinu.

Við bendum líka á annan þátt sem getur orðið til þess að auka tekjur ríkisins. Hann liggur einfaldlega í því að ríkið taki ákvörðun um að hætta við að fresta skattlagningu á lífeyrisgreiðslur. Fyrr í sumar bentum við á að kerfisbreyting á almenna lífeyrisgreiðslukerfinu gæti skilað ríkinu á bilinu 35–40 milljörðum, eftir því hvernig það væri útfært. Sannarlega væri þetta stór ákvörðun. Þetta væri mikil kerfisbreyting sem gæti haft langtímaáhrif en hún mundi a.m.k. engin áhrif hafa á heimilin í landinu í dag eða atvinnustarfsemina. Það mundi draga úr þjóðhagslegum sparnaði og við höfum bent á gallana við það. Við höfum alltaf sagt: Slíkar kerfisbreytingar verða ekki gerðar nema í góðu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Það er augljóst.

Þessari tillögu var misjafnlega tekið en við teflum henni engu að síður aftur fram til þess að vekja athygli á því að það er mikilvægt að við finnum aðrar leiðir en að koma með þá skatta sem ríkisstjórnin hefur bent á. Þess vegna tökum við til skoðunar fleiri aðferðir við að hætta við að fresta skattlagningu í lífeyrissjóðakerfinu. Það kemur nefnilega fleira til álita en að gera þessa stóru kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna. Það mætti t.d. hugsa sér að gera tímabundna breytingu á kerfinu.

Annað dæmi sem við vekjum sérstaka athygli á í tillögum okkar er séreignarsparnaðarkerfið. Inni í séreignarsparnaðarkerfinu á hið opinbera frestaðar skatttekjur upp á um 100 milljarða. Ef við gerðum þá kerfisbreytingu núna og segðum: Gott og vel, við þurfum á þessum fjármunum að halda til þess að flýta fyrir efnahagsbatanum, mundi ríkið taka til sín í einu lagi 75 milljarða í nýjar skatttekjur og sveitarfélögin í landinu fengju í kringum 25 milljarða. Þetta eru engar smátölur. Í millitíðinni mundum við nota tímann til þess að koma atvinnustarfseminni í gang, lækka vexti, skera niður í ríkisútgjöldum og koma fjárlögunum í jafnvægi. Hvar stæðum við þá eftir tvö, þrjú ár? Við værum alla vega laus við þessa nýju skatta, óþarfa skatta sem ríkisstjórnin kynnir til sögunnar. Við værum laus undan því að lifa í kreppunni árinu, tveimur, þremur lengur. Þessar tillögur ganga einfaldlega út á að við förum hraðar í gegnum efnahagslægðina. Það er kjarni málsins.

Í þessum tillögum okkar eru líka ábendingar um að nauðsynlegt sé að endurskoða áætlunina með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Mér sýnist að um það takist nokkuð víðtæk sátt eða sameiginlegur skilningur á þörfinni á að endurskoða þessa áætlun. Að okkar mati felur hún í sér áform um að taka meiri lán en nauðsynlegt er. Við eigum ekki að taka meiri lán en nauðsynlegt er. Vaxtakostnaður vegna þeirrar lántöku sem fyrirhuguð er hleypur á tugum milljarða. Við bendum á leiðir í okkar tillögum til þess að forða íslenskum skattgreiðendum frá tugmilljarða nýjum vaxtaálögum að óþörfu. Það er mikilvægt.

Það er talað um að byggja upp risastóran sjóð í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðrar þjóðir sem vilja fjármagna okkur í gegnum efnahagslægðina. Við þurfum að horfa til þess í hvaða tilgangi er verið að reisa þennan sjóð. Í fyrsta lagi er það gert til þess að auka trúverðugleika á íslensku efnahagslífi. Gott og vel. Í annan stað er sjóðurinn nauðsynlegur til þess að sýna að við getum fjármagnað þær afborganir sem lenda á ríkinu eða þeim fyrirtækjum sem hafa ríkisábyrgð á næstu árum og við vitum að á árinu 2011 verða þungar afborganir. Við þurfum að fjármagna þetta, það er satt, en í þriðja lagi er talað um að byggja upp þennan sjóð til þess að standa að baki krónunni til þess að við getum lyft gjaldeyrishömlunum. Þarna teljum við að menn hafi gengið of langt í áformum um að taka ný lán.

Við vekjum athygli á þeim möguleika að í stað þess að þessi sjóður sé byggður upp, sem augljóslega er aldrei hægt að nota til þess að verja krónuna, fari menn þá leið að bjóða þessum hræddu krónum að þeim verði skipt yfir í ríkisskuldabréf til langs tíma. Að við búum til prógramm með ríkisskuldabréfaútgáfu, bréf sem verði hægt að fara með á markaðinn og þannig verði þrýstingi létt af krónunni. Þetta mun draga úr þörfinni fyrir nýjar lántökur. Við tölum líka um að í stað þess að við séum að draga á lán sé mikilvægt fyrir okkur að hafa opnar lánalínur. Við þurfum alltaf að velja ódýrasta kostinn. Ódýrasti kosturinn er það sem við eigum að horfa á.

Þegar allt er tekið saman dugar ekkert eitt af því sem við teflum fram í okkar tillögum. Hlutirnir þurfa að gerast í réttri röð og þeir þurfa að spila saman. Það er t.d. augljóslega ekki hægt að aflétta gjaldeyrishömlunum áður en menn hafa létt af þrýstingi á krónunni. Það er heldur ekki hægt að gera það fyrr en menn sýna fram á að hér séu að gerast jákvæðir hlutir í efnahagsumhverfi okkar, í hagkerfinu. Þeir hafa einmitt verið að gerast undanfarið ár. Nú erum við t.d. komin með jákvæðan vöruskiptajöfnuð, það skiptir miklu máli upp á trúverðugleika og traust á íslensku efnahagslífi. Við munum þurfa að sýna fram á að við höfum náð að skapa hér umhverfi sem laðar að erlenda fjárfestingu. Ríkisstjórnin gerir þveröfugt. Hún kynnir til sögunnar nýja skatta sem hræða fjárfesta í burtu. Við þurfum að sýna fram á að þeir möguleikar sem við höfum úr að spila verði nýttir en ríkisstjórnin gerir þveröfugt. Hún þvælist fyrir þeim verkefnum sem eru uppi á borðum og geta skapað þúsundir nýrra starfa. Við þurfum að sýna að við séum með trúverðugt plan í ríkisfjármálum. Við vitum hvernig við ætlum að loka fjárlagagatinu. Við ætlum ekki að eyða um efni fram lengur en nauðsyn krefur. Enginn ætlast til þess af okkur að við leysum allan fjárlagavandann á einu ári.

Þegar allt kemur til alls mun traust á íslensku hagkerfi byggjast á trúverðugu plani, ekki á því hversu stór lán við höfum tekið. Við skulum beina athyglinni frá þörf fyrir 800 milljarða lán til þess að við getum fleytt krónunni og líta á aðgerðir sem efla trúverðugleika íslensks efnahagslífs og munu augljóslega til lengri tíma litið skipta máli. Lokum fjárlagagatinu með því að koma verðmætasköpuninni í gang. Förum að skapa hér störf. (Forseti hringir.) Hættum að eyða um efni fram og veljum ódýrustu leiðina út úr kreppunni. Tryggjum aðgerðir sem lágmarka (Forseti hringir.) þann tíma sem við þurfum að taka á okkur (Forseti hringir.) í efnahagslægð. Við getum byggt upp mjög hratt.