138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær aðstæður sem við erum í nú kalla á róttækar breytingar og þetta er kannski sú róttæka breyting sem við þurfum að fara í til þess að hlífa heimilunum í landinu. Það er ljóst að lífeyrissjóðakerfið okkar var ákaflega burðugt fyrir hrun og það er engum vafa undirorpið að það varð fyrir áhlaupi. Ekki er búið að gera upp lífeyrissjóðina eftir hrun og það er ekki vitað enn þá hve miklum fjármunum þeir hafa tapað vegna þess að það gengur illa og seint að gera upp bankana. Þurfum við ekki nú að hugsa virkilega út fyrir kassann og breyta þessu kerfi? Til þess að mæta töpuðum skattgreiðslum til framtíðar væri hugsanlega hægt að stofna sérstakan auðlindasjóð sem fjármagnaður yrði svipað og norski olíusjóðurinn.

Ég held að við stöndum á það miklum tímamótum í dag að við þurfum að endurskoða þetta á róttækan hátt og skoða allar leiðir sem við getum til að hlífa heimilunum númer eitt, tvö og þrjú. Þau þola ekki þær byrðar sem koma fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og nú er enn boðaður niðurskurður. Ég bið því þingmenn að skoða þessa (Forseti hringir.) tillögu með jákvæðum hætti.