138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:10]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir góðar undirtektir við tillögum okkar. Ég tek undir með hv. þingmanni um að við þurfum að finna leiðir til þess að hlífa heimilunum og fyrirtækjunum. Við vitum að fjölskyldur í landinu upplifa mjög skertan kaupmátt og atvinnuleysi hefur vaxið. Þetta bætist síðan við aukna skuldsetningu heimilanna í kjölfar þess að hér hefur verið verðbólga og mörg heimili hafa verið með gengistryggð lán sem hafa hækkað óbærilega. Þetta er verkefnið.

Ég sakna þess að ríkisstjórnin reyni ekki að efna til frekari samstöðu um þessar erfiðu aðgerðir. Ekkert okkar sem er hér heldur því fram að auðvelt sé að vinna á þessum vanda. Enginn heldur því fram að það sé ekkert mál að skera niður en það er afskaplega fátt gert til þess að efla samstöðu um þessar erfiðu aðgerðir. Mér finnst ríkisstjórnin miklu frekar setja á dagskrá mál sem leiða til sundrungar, óöryggis í atvinnustarfsemi og þar er auðvelt að vísa t.d. til þess í (Forseti hringir.) hvaða stöðu sjávarútvegurinn í landinu hefur verið settur.