138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:13]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, við göngum út frá því í okkar tillögum að þar verði haldið áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Stóru vonbrigðin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru þau að það liggur fyrir staðfest, m.a. frá fulltrúa sjóðsins hér á Íslandi, að við Íslendingar höfum staðið við allt sem að okkur snýr, eins og hann orðaði það á fundi sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins áttum með honum fyrr í vikunni. Það er búið að haka við öll boxin sem við áttum að uppfylla en einhverjar pólitískar ástæður eru fyrir því að samstarfið gengur ekki hraðar fyrir sig en raun ber vitni. Við höfum auðvitað lýst, eins og þingmenn annarra flokka hér á þinginu, yfir gríðarlega miklum vonbrigðum með þetta. Við látum ekkert tækifæri fram hjá okkur fara til þess að koma þeirri óánægju á framfæri við fulltrúa annarra þjóðþinga eins og ég gerði rétt áðan við forseta sænska þingsins. Ég held að við ættum öll að nota hvert tækifæri sem við höfum til þess að lýsa óánægju okkar með þetta.

Ég hef áður sagt að ef samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn byggir á því að við getum ekki fengið endurskoðun eða framgang í þessa áætlun án þess að mæta pólitískum afarkostum vildi ég heldur vera laus við það. Ég trúi því enn þá að við getum fengið betri lendingu í málin en að það sé það eina sem er í boði. Ég skynja líka vilja hjá starfsmönnum sjóðsins hér á landi til þess að reyna að leysa þessa deilu.

Aftur að spurningunni. Við viljum byggja áfram á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við viljum bara einfaldlega draga úr þeim áformum um lántökur sem áætlunin gengur út á. Mér finnst eins og nú sé að takast ágætis samstaða um þá nálgun. Maður skynjar það bæði frá Seðlabankanum og úr ólíkum þingflokkum hér á þinginu (Forseti hringir.) að við eigum að leita leiða til þess að draga úr þessum lántökum.