138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir harða gagnrýni hv. þingmanns á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þau efni sem hann tilgreindi. Það er rétt að við eigum að nota öll tækifæri, og höfum auðvitað verið að gera það, þingmenn úr öllum flokkum til þess að gera athugasemdir við það hvar sem við komum, hérlendis eða erlendis. Um leið fagna ég þeirri skýru afstöðu Sjálfstæðisflokksins að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um efnahagsuppbygginguna sé ákjósanlegt. Það er gott að vita til þess að í stjórnarandstöðunni sé þó einn stjórnmálaflokkur sem nálgist þetta af þeirri ábyrgð að viðurkenna að það er mikilvægur þáttur í því að byggja upp trúverðugleika okkar og skapa okkur lánstraust á alþjóðlegum mörkuðum og að til þess sé affarasælast að við ráðumst í endurskoðun á þeirri áætlun sem við höfum unnið að með þeim, enda gagnkvæmt hagsmunamál okkar og sjóðsins að áætlunin verði árangursrík. Ég held að nokkur samhljómur sé um ýmis atriði (Forseti hringir.) sem megi taka til endurskoðunar, m.a. upphæð þeirra lána sem ástæða er til að taka á næstu mánuðum og missirum.