138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu kemur fram að flutningsmenn benda á að umfang hins opinbera hafi aukist mjög á undanförnum árum. Nú er ekki langt síðan að Sjálfstæðisflokkurinn fór úr ríkisstjórn. Ég hefði áhuga á að heyra frekar frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni hvar hann sér fyrir sér að hægt sé að skera frekar niður en það sem lagt er til í núverandi fjárlagafrumvarpi. Af því tilefni langar mig sérstaklega til þess að minna hann á eitt sem gerðist held ég veturinn 2007–2008. Þá skilst mér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórnarsamstarfi með öðrum S-flokki sem heitir Samfylkingin og á þeim árum, 2007–2008, hafi fjárframlög til þessara samfylkingarráðuneyta aukist ekki bara um 10% heldur jafnvel 20, 30 eða 40%.

Til þess að minna hv. þingmann á hvaða ráðuneyti þetta voru og hvort sjálfstæðismenn hafi einhverjar hugmyndir um niðurskurðinn, þá voru þetta félagsmálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, viðskiptaráðuneyti. og umhverfisráðuneyti. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra hugmyndir hans um hvernig væri hugsanlega hægt að taka þetta að einhverju leyti til baka því það er mjög stutt síðan þetta var gert.