138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram. Ég held að það sé mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi leggi fram sínar hugmyndir að lausnum í þeim hremmingum sem við erum að ganga í gegnum. Það vekur athygli mína að í meginatriðum eru þessar tillögur um þrennt. Í fyrsta lagi niðurskurð og þó ekki á framkvæmdum að sagt er. Í öðru lagi tekjur, þar kemur fram ný hugmynd sem kom í raun fram í vor og ég taldi og tel enn að mikil ástæða sé til þess að skoða til hlítar hvort sú leið er fær. Henni var ýtt til hliðar í umræðunni um stöðugleikasáttmálann einfaldlega vegna þess að Samtök atvinnulífsins og launþegahreyfingarnar töldu á þessu marga annmarka. Því vannst ekki tími til þess að skoða það til enda en formaður efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, hefur þegar lýst því yfir að þetta mál muni fara inn í tekjuhlutann og umræðuna í efnahags- og skattanefnd og hljóta þar afgreiðslu. Í þriðja lagi gengur tillagan út á tekjuaukningu eða eflingu á atvinnulífi, auk þess sem þar eru ýmsar hugmyndir í sambandi við fjármálalífið almennt, gjaldeyrishöft og annað.

Ef við berum þessar tillögur í meginatriðum við þær hugmyndir sem unnið hefur verið eftir, það plan sem lagt var upp með sl. haust og var síðan endurskoðað fyrst af minnihlutastjórninni og síðan núverandi ríkisstjórn, þá er í meginatriðum um að ræða sömu atriðin. Ég ætla aðeins að draga fram í hverju mismunurinn felst.

Í fyrsta lagi virðist vera samstaða um þessa aðlögunarþörf, þ.e. við þurfum að stilla samfélagið upp á nýtt við nýja neyslu. Við þurfum að minnka útgjöldin og gera það býsna hratt. Raunar kemur þetta líka fram í tillögum sjálfstæðismanna, a.m.k. í orðum hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan, vegna þess að þar er einfaldlega spurningin um að spara vexti. Það er líka því tengt sem kemur fram hér varðandi endurskoðunina á prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem Sjálfstæðisflokkurinn styður greinilega, það þarf að haga málum þannig að við reynum að lágmarka lántökur eins og hægt er, þó þannig að þær tryggi traust á íslensku efnahagslífi og okkar veika gjaldmiðli eins og hægt er. Það virðist ekki vera ágreiningur um þessa aðlögunarþörf þótt það megi sjálfsagt deila um í hvaða þætti eigi að fara. Ríkisstjórnin hefur valið að fara líka í framkvæmdaþætti í þeirri aðlögun til þess að minnka lækkun á útgjöldum á einstökum stofnunum vitandi að harður niðurskurður á einstökum stofnunum eða ráðuneytum er bara ávísun á uppsagnir og núna ekki rétti tíminn að fara í það. (TÞH: Hjá ríkinu.) Það er alveg hárrétt, það er hjá ríkinu. Þetta er hið fína jafnvægi, að við skerum ekki niður fyrr en almenni vinnumarkaðurinn geti a.m.k. tekið við því fólki þannig að við aukum ekki beinlínis á atvinnuleysið þar, þótt það sé að einhverju leyti óhjákvæmilegt.

Varðandi skattana. Ríkisstjórnin hefur talað fyrir blandaðri leið, þ.e. aðlögun, skattlagningu og eflingu atvinnulífsins. Allir þessir þættir eru inni í tillögum ríkisstjórnarinnar og eru raunar þeir sömu og hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er ágreiningur varðandi hvernig þessir skattar eigi að vera, að hve miklu leyti eigi að leggja þá fram. Sjálfstæðisflokkurinn segir að það eigi ekki að leggja neina skatta á einstaklinga eða fyrirtæki og er þar með nýja tillögu sem mér finnst full ástæða til að skoða. Aftur á móti hefur ríkisstjórnin sagt að það sé óhjákvæmilegt að eiga við skattahækkanirnar. Þar hefur verið horft til þess fyrst og fremst að hverfa til baka til þess tíma þegar skattarnir voru örlítið hærri. Eins og ég hef margítrekað hér í ræðum fóru menn í skattalækkanir hjá fyrirtækjum og einstaklingum á kolvitlausum tíma þegar þenslan var og notuðu þá öll þau úrræði sem okkur vantar einmitt núna. Núna hefðum við átt að vera að lækka skatta og setja aukalántökur. Að vísu voru lántökur ríkissjóðs ekki mjög háar á þeim tíma, í þenslunni, en lántökur samfélagsins voru það hins vegar. Mikið af neyslunni virðist hafa verið fyrir lántökur. Öll þessi úrræði notuðum við á kolvitlausum tíma þegar þenslan var hvað mest. Það hefur takmarkað möguleika núverandi ríkisstjórnar til þess að nota hefðbundin úrræði til þess að komast út úr vandanum.

Þarna greinir á um með hvernig eigi að leggja á skatta og fram koma þessi hefðbundnu viðhorf að það eigi að auka skattstofnana með því að hafa enga skatta. Ég held að mikil þörf sé á því að fara yfir söguna í sambandi við þetta. Lækkandi skattar á sínum tíma á fyrirtækjum, voru það ekki einmitt froðuskattarnir sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vakti athygli á að hefðu verið allt of veikir, því þeir héldu ekki til lengri tíma litið? Þá voru m.a. verulegar tekjur af fjármálalífinu og þeir skattar hafa síðan hrunið. Ég held að menn verði að skoða þetta. Það væri mjög fróðlegt að skoða skatta á Norðurlöndunum en þær þjóðir standa mjög sterkt í dag og svo virðist vera að þeim líðist að skattleggja mun meira en við gerum þrátt fyrir allt.

Ég tek því engan veginn undir að skattahækkun sé gamaldags leið. Ég held þvert á móti að sú leið sem hér hefur verið haldið fram, m.a. í ræðustól nýlega af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem talaði um „látið okkur í friði, við sjáum um þetta“-stefnuna sem atvinnulífið óskar eftir — það er nákvæmlega stefnan sem setti okkur í vandræðin, þ.e. slakt regluverk, lítið af skýrum fyrirmælum eða umhverfi fyrir atvinnulífið. Við ætlum ekki að fara til baka til þess tíma. Við ætlum að búa til miklu betra regluverk og koma hlutunum í betra horf. Það þýðir ekki að við ætlum að ofstjórna atvinnulífinu eða hindra að það eigi möguleika á að vaxa eða hafa eðlilegan arð.

Í sambandi við stöðugleikasáttmálann, þegar menn ræða um að menn ættu að hafa meira samráð, get ég heils hugar tekið undir það. Auðvitað á að reyna að efla samstöðuna í þinginu. Hún hefði mátt vera miklu, miklu meiri. Þar viðhöfðu menn einmitt þá vinnuaðferð að þegar farið var í þessa vinnu nú í sumar voru allir aðilar kallaðir að borðinu. Út úr því kom stöðugleikasáttmálinn sem er núna í svolítilli hættu vegna þess að það þarf að fylgja betur eftir að ákveðin atriði hans standist. Hann gekk einmitt út á þessa þríþættingu, þ.e. niðurskurð, skatta og eflingu atvinnulífs. Síðan er það okkar að fylgja því eftir. Það er einmitt sú stefna sem ríkisstjórnin valdi í samstarfi við þessa aðila og þar voru stjórnmálaflokkar allir inni líka, þótt það sé rétt að þeir hafi ekki setið við borðið við alla vinnuna frekar en einstakir þingmenn stjórnarliðanna hér á hverjum tíma.

Í umræðunni er svolítið vinsælt og það er búið að segja ansi oft hér í þingsal að það eigi að hlífa heimilum og fyrirtækjum. Ég hefði gaman af því að heyra hverjir eru þá eftir. Hverjir eru ekki hluti af heimili eða fyrirtæki? (Gripið fram í.) Ég hef ekki fengið nánari skýringu. Mér finnst þetta vera dæmigerðar yfirlýsingar sem í sjálfu sér standast ekki. Það er ekki hægt að hlífa heimilum og fyrirtækjum í því ástandi sem nú er, því miður. Þess vegna getum við skoðað í framhaldinu hvernig við látum alla þessa aðila fara sem best út úr málunum. (Gripið fram í.) Það er ekki spurning um að hlífa fólki, því miður, tillögurnar ganga ekki út á það heldur eru þær um niðurskurð sem auðvitað bitnar á fólki og þjónustu, það segir sig sjálft. Tekjuhlutann er ég búinn að ræða, hann á auðvitað að skoðast.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þegar hún varar við þessari hólfaskiptingu og rammasetningu í sambandi við fjárlög og að það þurfi að breyta vinnubrögðum. Ég held að það sé einmitt hlutverk okkar í þinginu að horfa til þess hvort hægt sé að gera þetta með öðrum hætti. Það er hluti af því sem líka er sett inn í fjárlagafrumvarpið, að horfa til þess með hvaða hætti hægt er að sameina stofnanir, breyta uppstokkun á ráðuneytum og sameina stofnanir þvert á ráðuneyti. Þetta var örlítið gert í síðustu ríkisstjórn, eða réttara sagt næstsíðustu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þar sem menn reyndu einmitt að endurreisa ákveðna þjónustu óháð ráðuneytum. Við reynum allt of mikið að koma útgjaldaliðum á milli ráðuneyta og höfum ekki hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Fram undan er gríðarlegt verkefni. Við erum komin af stað og það er ljóst að við þurfum að fylgja þessum málum mjög vel eftir. Ég vara þó við hugmyndum sem hér hafa komið fram. Annars vegar er óskað eftir samstöðu en þegar við unnum t.d. í upphafi Icesave-málsins komu einmitt fullyrðingar inn í fjárlaganefnd: „þið verðið að koma með tillögur“, „ríkisstjórnin verður að leggja fram sína stefnu, fyrr getum við ekki ...“. Þetta er auðvitað ákveðið sjónarmið en menn geta ekki bæði haldið og sleppt. Menn verða að geta spilað út á undan ríkisstjórninni í einhverjum tilfellum og gefið leiðbeiningar eða komið að borðinu strax. Þetta eru vinnubrögðin sem hafa tíðkast í þessu máli. Það lá t.d. fyrir varðandi Icesave, og það hljóta menn að geta staðfest sem eru með mér í fjárlaganefnd, að frá upphafi var lagt upp með að ná samstöðu um það mál. Frá fyrsta degi. (TÞH: Halló Hafnarfjörður.) Ég stjórnaði þeirri vinnu, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, og veit nákvæmlega hvað ég lagði upp með. (TÞH: Þú veist að ég var á staðnum.) Ekki á fyrsta fundi hjá fjárlaganefnd. Ég er að tala um í fjárlaganefnd, það lá alveg fyrir. Þá voru menn hér eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem á fyrstu fundum talaði fyrir sameiningu. Þetta væri allt of stórt mál til þess að hleypa því upp hér í þinginu, við þyrftum að leysa það í sátt. Hv. þingmaður má eiga sinn þátt í því og hann gerði það af miklum heilindum.

Það sama gildir um fjárlagafrumvarpið sem við ræddum fyrr í dag, þetta með að senda frumvarpið til baka vegna þess að tillögur í smáatriðum eru ekki tilbúnar. Það er einmitt (Forseti hringir.) þessi sama aðferðafræði. Af hverju tökum við ekki málið og vinnum það áfram í efnahags- og skattanefnd, tökum tillögur sjálfstæðismanna, (Forseti hringir.) vinnum úr þeim og finnum bestu lausnirnar. Það er verkefnið sem Alþingi hefur núna á næstu dögum, (Forseti hringir.) að finna bestu lausnirnar.