138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki ofmælt að stjórnarflokkarnir og Sjálfstæðisflokkurinn í þessum efnahagstillögum sínum eru nokkuð samstiga um að það þurfi að spara í ríkisútgjöldum. Við erum ekki sammála um hvernig á að gera það en þegar kemur að tekjuhliðinni kemur aðalágreiningurinn fram. Ríkisstjórnin vill skatta sig út úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna en við viljum ekki skattleggja fyrirtækin og heimilin. Hv. þingmaður spyr hvað við eigum þá að skattleggja úr því að þjóðfélagið stendur saman af fyrirtækjum og heimilum. Það er visst innsæi í þessu hjá hv. þingmanni.

Þess vegna held ég að það sé rétt að ég útskýri hvaðan tekjurnar eiga að koma. Þær eiga að koma af skattkerfisbreytingu á lífeyrissjóðum og af því að við ætlum að koma efnahagslífinu af stað, ekki með því að standa í vegi fyrir framförum eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur gert eða letja fjárfestingu eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert heldur með því að horfa fram á veginn og blása til sóknar, skapa ný störf, breikka skattgrunnana og búa þannig til tekjur fyrir ríkissjóð. Þarna greinir okkur alvarlega á. Við höfum trú á að vöxtur atvinnulífsins muni leiða okkur út úr þessum ógöngum. Stjórnarflokkarnir trúa því að við munum komast út úr þeim með skattlagningu.