138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet fólk til þess að hlusta á hvað hv. þingmaður sagði. Hann sagði að það mætti ekki túlka orð hans þannig að þótt ekki væri nákvæm útfærsla á sköttum væri það alls ekki þannig að málið væri ekki tilbúið. Segjum að við hefðum samþykkt fjárlagafrumvarpið, bara afgreitt það hér. Hvernig ætluðu menn að framkvæma það? Þeir höfðu ekki hugmynd um það. Þetta er álíka spennandi og þátturinn Days of our lives , held ég hann heiti í ríkissjónvarpinu, að fylgjast með samskiptum ráðherra í fjölmiðlum sem yfirbjóða hver annan í útfærslu á sköttum.

Þetta fjárlagafrumvarp er ekki tilbúið. Því fer víðs fjarri. Það er ekkert eðlilegt við það að henda fram einhverjum tölum eða einhverjum texta og það er ekkert lýðræðislegt við það. Ríkisstjórnin á að undirbúa þetta. Ef þingið er ekki tilbúið til að fallast á einstaka liði hjá ríkisstjórninni þá breytir þingið því en við sitjum núna uppi með fjárlagafrumvarp sem er algjörlega vanbúið. Ég ákvað að taka ekki niðurskurðinn en það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að hér sé ekki um flatan niðurskurð að ræða, við þekkjum það í heilbrigðismálunum. Ég vona og trúi því að hv. heilbrigðisráðherra muni taka á þeim málum og fundur í heilbrigðisnefnd í morgun bar þess vitni að verið væri að taka það fyrir af fullri alvöru.

Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum átti að vera búið að ganga frá samkomulagi við lífeyrissjóðina fyrir 1. september. Um miðjan september upplýstu þeir að það væri varla búið að tala við þá. Aðgerðir umhverfisráðherra eru ekkert annað en brot á stöðugleikasáttmálanum. Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum þetta eðlilegt? Ekki reyna að útfæra það eða halda því fram að það sé eðlilegt hjá ríkisstjórn, sama hvar hún er, að henda plaggi inn í þingið (Forseti hringir.) sem er algjörlega óútfært og að það hafi eitthvað að gera með lýðræðislega eðlileg vinnubrögð. Því fer víðs fjarri að svo sé.