138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Það snýr að rétti okkar og möguleikum til þess að nýta auðlindir okkar, einkum og sér í lagi orkuauðlindir. Fyrir nokkrum árum fékkst það staðfest í svokölluðum Kyoto-sáttmála að við Íslendingar höfum nú þegar náð gríðarlega miklum árangri þegar kemur að umhverfisvernd og orkunýtingu, sérstaklega á endurnýjanlegri hreinni orku. Og það var tekið tillit til þess þegar Kyoto-sáttmálinn var gerður að það væri eðlilegt að Ísland fengi að njóta þess árangurs sem við höfðum þá þegar náð, árangurs sem er miklu meiri en flestallar þjóðir sem gengust undir Kyoto-sáttmálann hafa náð og höfðu náð á þeim tíma. Það sem meira var, það var líka litið til ýmislegrar sérstöðu sem við búum við hvað varðar stærð hagkerfisins og þess að við eigum enn þá mikla möguleika á að nýta hreina orkugjafa til þess einmitt að framleiða með sem hreinustum og mengunarlausustum hætti.

Þegar horft er á málin hnattrænt lýtur þess vegna Kyoto-undanþágan svokallaða, eða hið íslenska ákvæði, að því að nýta sem best hreinar orkulindir. Það er grundvallarhugsunin. Hér er ekki um að ræða einhvers konar undanþágu til þess að geta, eins og stundum er talað um, verið skítugri og framleitt með verri hætti, að Íslendingar láti sig umhverfismál litlu varða. Þvert á móti fjallaði ákvæðið akkúrat um hið gagnstæða og fékkst samþykkt í samfélagi þjóðanna á þeim forsendum. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum, frú forseti, þegar hæstv. umhverfisráðherra hefur ákveðið að við Íslendingar munum ekki sækja áfram þessa undanþágu.

Það veldur vonbrigðum, bæði fyrir hönd okkar Íslendinga sem með því drögum úr möguleikum okkar til þess að nýta orkulindir okkur og um leið þegar menn horfa á þetta í hnattrænu samhengi, þegar menn horfa á þann vanda sem mannkynið er að reyna að leysa. Þetta eru tvöföld vonbrigði.

Um það hefur verið rætt og fram hefur komið í umræðunni að ekki sé nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að sækja þetta vegna þess að við séum að fara inn í hið svokallaða EPS-kerfi sem byggir á því að menn geti keypt og selt slíkar heimildir á vettvangi Evrópusambandsins. Það er auðvitað rangt. Við Íslendingar getum vel sótt þetta og haft þessa undanþágu, bæði getum við farið í samningaviðræður við ESB um það hvernig fara skuli með slíkar heimildir innan EPS-kerfisins, en hitt er líka að þessar heimildir eru skilgreindar í Kyoto-sáttmálanum og hvers eðlis þær eiga að vera. Og það er ekkert sjálfgefið endilega og alltaf að þær þurfi t.d. bara að fara til álvera, þær geta farið á annan iðnað sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fram í Kyoto-bókuninni. Með öðrum orðum er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að við Íslendingar höldum til haga hagsmunum okkar í þessu máli, alveg burt séð frá því hvort við göngum inn í ESB, hvort við förum í EPS-kerfið eða einhver önnur kerfi. Þetta eru hagsmunir okkar Íslendinga.

Ég vil benda, frú forseti, á eitt enn: Norðmenn geta nýtt sína orkuauðlind, olíuna, algjörlega án þess að þurfa að vera settir undir slík skilyrði sem á að setja okkur Íslendinga undir núna hvað varðar nýtingu orkuauðlindanna, vegna þess að þegar Norðmenn pumpa upp sinni olíu, senda hana í tunnum til annarra landa er dregið frá kolefnisútstreymi í iðnframleiðslu í þeim löndum. Við Íslendingar, með okkur hreinu, góðu orku, getum bara nýtt hana á Íslandi, í margs konar iðnaðarframleiðslu á Íslandi. Og það er óréttlátt, ósanngjarnt og rangt, hvernig sem maður lítur á málin, hvort sem maður lítur á þau frá efnahagslegum rökum eða umhverfisrökum, að stilla málum þannig upp að við getum t.d. ekki nýtt okkar hreinu orku nema gangast undir allt of strangar reglur, en t.d. Norðmenn og aðrar olíuþjóðir geta pumpað upp olíu og nýtt olíulindir sínar þannig.

Að sjálfsögðu, frú forseti, eigum við að sækja þetta ákvæði, við eigum að sækja það fast, þetta er ákvæði sem við Íslendingar eigum að eiga, við eigum að geta nýtt það okkur hérna bæði til hagsældar og líka með ábyrgum hætti þegar horft er á umhverfismál. Sú nálgun sem hæstv. umhverfisráðherra hefur farið af stað með tel ég að sé óheppileg. Það hefði nefnilega, frú forseti, aldrei farið þannig að þjóðir heims, undir reglum Kyoto, hefðu samþykkt íslenska ákvæðið svokallaða nema fyrir því hefðu (Forseti hringir.) verið rök sem lúta að því að það hjálpar til að leysa þann hnattræna vanda sem um er að ræða.