138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:43]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir orð hæstv. umhverfisráðherra um að það verði einbeittur pólitískur vilji þessarar ríkisstjórnar og okkar hér, þingheims, að vera hluti af lausninni í loftslagsmálum. Ég trúi því í hjarta mínu að allir séu í raun þeirrar skoðunar, sama hvar í flokki þeir standa.

Sú stefna var mótuð fyrir tveim árum að verða hluti af lausninni. Það var í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. (Gripið fram í: Við erum að tala um Kyoto-bókunina.) Við erum að tala um Kyoto-bókunina. (Gripið fram í.) Stelpur mínar, verið alveg rólegar. Frú forseti, get ég fengið að tala? [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmenn um ró í þingsalnum og áminnir jafnframt hv. þingmann um að ávarpa þingmenn með viðeigandi fornöfnum.)

Hluti af þeirri stefnu hefur komið fram, m.a. í vegvísinum í Balí og í þeirri ákvörðun stjórnvalda að fara þess formlega á leit við Evrópusambandið að verða hluti af orku- og loftslagspakka sambandsins. Það skiptir nefnilega máli, ólíkt því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson hélt fram, að allar losunarheimildir íslenskrar stóriðju verði komnar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins 1. janúar 2013. (Gripið fram í: Só?) Það er grundvallarbreyting á umhverfi álvera og járnblendis hér á landi. Losunarheimildirnar sem þá verða komnar í viðskiptakerfið verða á markaði. Þessi fyrirtæki verða á samkeppnismarkaði innan EES, þeim verður ekki úthlutað á Íslandi, þeim verður úthlutað miðlægt í gegnum EES og það skiptir mjög miklu máli að þingmenn geri sér grein fyrir því hvað þetta þýðir fyrir framtíð þessa atvinnurekstrar hér á landi. (Gripið fram í.) Hann fer inn í samkeppnisumhverfi eins og annar atvinnurekstur í Evrópu. (Forseti hringir.) Forskotið er, frú forseti, að hér eru nýttar endurnýjanlegar auðlindir.