138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Það ber að þakka þá utandagskrárumræðu sem hér fer fram. Umræðan undanfarna daga um ákvörðun umhverfisráðherra og ríkisstjórnarinnar er á margan hátt dálítið sérstök og mig langar að byrja á því að nefna það sem þingmaður nokkur sagði í umræðunni fyrr í vikunni, hann talaði um að Ísland hefði afsalað sér fyrir hönd þjóðarinnar einum 15 milljörðum á því tímabili sem Kyoto-bókunin nær yfir og að mál yrðu í algjöru uppnámi í árslok 2012. (VigH: Rétt.) Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið, fráleit staðhæfing og ég held að skýrt hafi komið fram bæði hjá hæstv. umhverfisráðherra og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur hvernig málum er háttað og hvernig málum verður háttað 2013 þegar nýtt skuldbindingartímabil hefst. (Gripið fram í: Við erum að tala um afsal …) Frú forseti. Viltu biðja hv. þingmann að róa sig.

Ég fagna því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði á umhverfisþingi, að íslensk stjórnvöld færu ekki til Kaupmannahafnar til að biðja um nýjar undanþágur í loftslagsmálum. Mér finnst að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og fleiri hér ættu að fagna því hinu sama. Ef flokkar telja sig vera græna flokka skulu þeir sýna það ekki bara í orði heldur líka á borði.