138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:52]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel virðingu þjóðarinnar talsvert miklu meira virði en nokkur tonn af losunarkvóta, meira virði en það að ganga skríðandi á fótunum til samningaviðræðna í Kaupmannahöfn í desember. Það er svo mikið í húfi núna og ef við ætlum að selja virðingu þjóðarinnar á einhverjum afsláttarkjörum út af einhverjum fáránlegum losunarkvótum held ég að við séum að stefna í vitlausa átt. Undanþáguheimild Íslands er nefnilega yfirdráttarheimild í losunarkvótum heimsins. Við höfum verið á yfirdráttarheimild í samfélagi þjóðanna undanfarin ár og með sjálfum okkur og ég held að við séum búin að fá nóg af því (Gripið fram í: En af hverju …?) að vera á yfirdráttarheimild (Gripið fram í.) í samfélagi þjóðanna.

(Forseti (SVÓ): Forseti biður hv. þingmenn um að leyfa ræðumönnum að klára mál sitt.)

Mér finnst mjög merkilegt að á sama tíma og við erum að reyna að gera okkur gildandi og ná vopnum okkar og virðingu okkar á ný skuli okkur detta í hug að ætla að vera í sömu sporum og þróunarríkin sem leita undanþágu til þess að geta náð stöðu hinna svokölluðu þróaðra ríkja. Við skulum ekki leggjast svo lágt að fara sömu leið og þau, við þurfum þess ekki, við erum svo miklu betri en það. Og við skulum muna í dag að við puðrum þegar út 17 tonnum af koltvísýringi á Íslandi og þar af leiðandi … (Gripið fram í.) Þetta eru 17 tonn á íbúa á Íslandi og þar af eru 3 tonn á íbúa í Reykjavík, það eru þá 14 tonn á íbúa á landsbyggðinni á Íslandi þar sem við eigum okkar tæru og fallegu náttúru. Og við ætlum að reyna að rísa upp úr öskustónni (Forseti hringir.) á forsendum þessarar náttúru. Við erum byrjuð að semja okkur inn í losunarkvóta Evrópusambandsins og við skulum vera (Forseti hringir.) þjóð á meðal þjóða í þeim kvóta.