138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta umræðu og tek heils hugar undir þau orð málshefjanda að verkefni okkar hér á litla Íslandi er rétt eins og í þjóðþingum og yfirvöldum annarra landa núna frammi fyrir fundinum í Kaupmannahöfn að komast að skynsamlegri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Við getum bætt því við að vera til fyrirmyndar, við getum líka bætt því við að vera í fremstu röð. Auðvitað getum við líka bætt við þeirri sýn að við stöndum vörð um atvinnustarfsemi sem fyrir er í landinu. Þeirri sýn er haldið til haga.

Málshefjandi ræddi um viðskiptakerfi sem gengur í gildi 2013 og þær heimildir sem þá verða til við viðskiptakerfið. Þær verða ókeypis til að byrja með og verða ódýrari fyrir þau fyrirtæki sem menga lítið þegar þær síðan verða á markaði þannig að þær verða hagfelldari fyrir okkar fyrirtæki en önnur sem nota jarðefnaeldsneyti við sinn iðnað.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins hugmynd hv. þm. Péturs Blöndals um það að vera með útsölumarkað í Kaupmannahöfn fyrir íslenska orku. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort bókin góða, bæklingurinn sem Framsóknarflokkurinn á kannski í fórum sínum enn þá undir heitinu Lowest energy prices, er enn þá til. Það má kannski í nafni endurvinnslu nýta hann aftur og prenta nýtt ártal framan á plaggið í þágu hinna nýstárlegu markmiða hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Kjarni málsins er þessi: Það sem skynsamlegast er, það sem er til fyrirmyndar og það sem kemur Íslandi í fremstu röð er að setja okkur metnaðarfull markmið fyrir ráðstefnuna í Kaupmannahöfn og ég held að það væri vit að okkar góða samninganefnd fengi að koma á fund ýmissa nefnda í þinginu til að koma í veg fyrir þann misskilning sem virðist ganga ljósum logum, því miður.