138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[13:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér er komin fram tillaga til þingsályktunar um úrbætur í efnahagsmálum. Að vissu leyti má fagna því að slíkt komi fram frá fleirum en ríkisstjórninni enda kannski ekki sérlega burðugt það sem hefur komið frá þeim bæ. Ég náði að borða áður en ég þurfti að tjá mig um þessa þingsályktunartillögu og þess vegna mun ég fara mildari höndum um hana en ég ætlaði mér í fyrstu og kannski mildari en efni standa til.

Ég held að þessi tillaga sé að mestu leyti afspyrnu vond. Þetta er náttúrueyðingar- og landeyðingartillaga af þeim toga sem aldrei nokkurn tíma hefur litið dagsins ljós hér á landi. Þar eru í gangi sömu gömlu hugmyndirnar frá Sjálfstæðisflokknum og voru árin 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 um að það eigi að taka hverja einustu sprænu sem rennur til sjávar, eyðileggja hana og breyta farvegi hennar í nafni atvinnuuppbyggingar. Gott og vel. Atvinnuuppbyggingin sem slík er nauðsynleg og góð í eðli sínu en hugmyndafræðin á bak við þessa atvinnuuppbyggingu gengur ekki upp. Í fyrsta lagi býr hún ekki til næga atvinnu miðað við umfang og í öðru lagi býr hún til þannig atvinnu að við munum sjá undir iljarnar á ungu fólki úr landi frekar en að það flykkist út á land til að vinna. Í þriðja lagi er þessi uppbygging allt of dýr og kostnaðarsöm.

Í upphafi ætlaði ég ekki að tjá mig um þetta. Ég leit lítillega yfir þetta í gær en hnaut strax um nokkur orð og þess vegna ákvað ég að fara vandlega í þetta mál og skoða það vel. Að mestu leyti eru þetta sömu frasarnir og voru í gangi í upphafi þessarar aldar, þ.e. að hér þurfi að gera stórátak í stóriðju- og virkjunarmálum, blása í herlúðra og moka fósturjörðinni upp á vörubílspalla, keyra hana fram og til baka um landið, flytja hana til og vera með jarðvinnuframkvæmdir. Hér þarf að blása allt upp í geðveikisútþenslukasti, ekki einu sinni heldur tvisvar, þrisvar, fjórum eða fimm sinnum. Ráð um hvernig eigi að laga hagkerfið eru talin upp hvert á fætur öðru alveg eins og Kárahnjúkaóskapnaðurinn gerði en skemmdi samt.

5.000 störf segir hérna á fyrstu blaðsíðu, 4.000 störf, 5.000 störf, 20.000 störf sagði hv. formaður Sjálfstæðisflokksins áðan. Mér finnst dapurlegt að svona nokkuð skuli koma frá þeim því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla burði og fólk innan sinna vébanda sem hefur tíma og möguleika á því að búa til efnahagsstefnu sem getur verið góð til frambúðar og stuðlað að jafnvægi. Þetta er enn ein röðin af skyndilausnum sem eiga að kippa hlutum í lag. 10.000 ársverk og hvað svo þegar virkjunin er búin? Þá er það bara næsta virkjun og svo næsta virkjun. Við vorum þarna árið 2007, góðir sjálfstæðismenn. Vaknið þið nú og hugsið málið upp á nýtt. Sumt er að einhverju leyti jákvætt en flest neikvætt. Það á að gefa út skuldabréf í evrum. Það þýðir einfaldlega að erlendar skuldir aukast. Gjaldeyrishöft verði afnumin og krónunni leyft að fljóta. Gott og vel, það er mjög mikilvæg efnahagsaðgerð en á meðan verðtryggingunni er ekki kippt úr sambandi um leið mun hún einfaldlega rústa endanlega hag heimilanna í landinu. Þarna er ekki orð um að afnema verðtryggingu, ekki orð. Við skulum ekki gleyma því að skuldavandi heimilanna í landinu er stærsti efnahagsvandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er ekki mikill efnahagsvandi að það skuli ekki vera álver á Bakka. Það er skuldavandi heimilanna sem er efnahagsvandinn í dag og við skulum einbeita okkur að því að taka á honum.

Það eina sem stendur hér um skuldavanda heimilanna er að leiðrétta verði of mikla skuldsetningu heimilanna í landinu og að mynda skuli sérfræðihóp. Sjálfstæðismenn vita jafn vel og ég að það þarf að fella niður skuldir heimilanna í landinu til að þau nái að rétta úr sér en vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar það vilja þeir ekki gera það. Inni í þessu plaggi er ákveðið dufl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeir virðast gengnir í sæng með Samfylkingunni hvað varðar að vilja halda honum inni. Það er áherslubreyting sem er ný fyrir mér. Þar er ákvæði um fiskveiðar, sama gamla kerfið og rústaði strandbyggðum allt í kringum landið þegar framsal aflaheimilda var leyft. Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði. Við skulum ekki gleyma því hvað hefur gerst vegna þessa. Það á ekki að þurfa að endurtaka það úr þessu púlti að sú stefna rústaði landsbyggðinni. Hér er boðað meira af því sama. Til að hámarka arðsemi útgerðarinnar þarf að sjálfsögðu að taka þær aflaheimildir sem til falla á hverju ári og bjóða þær út. Þannig hámarka menn arðsemi, ekki með því að afhenda sérhagsmunahópum milljarða á silfurfati.

Það sama á að gerast með orkuauðlindirnar. Það á að taka orkuauðlindirnar og afhenda þær á silfurfati tilteknum fyrirtækjum og sérhagsmunahópum í staðinn fyrir að hugsa málið öðruvísi og segja sem svo: Hér höfum við þetta mikla orku sem ásættanlegt er að virkja, leitum tilboða í orkukaupin á alþjóðamarkaði og virkjum svo að því marki að náttúru landsins verði ekki gjöreytt. Hugsunin í þessu frumvarpi er einfaldlega gömul og á ekki við í dag.

Það væri hægt að gera alvarlegar athugasemdir við margt fleira varðandi þessa tillögu en það sem ég geri þó mestar athugasemdir við er hvað hún er algerlega steingeld af nýjum hugmyndum. Að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði er sérstakt hagsmunamál. Í annað skipti á 25 árum eru þúsundir fjölskyldna farnar á hausinn vegna þess að það var talið nauðsynlegt að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur byggju í eigin húsnæði. Þessi stefna gengur ekki upp nema fyrir hluta þjóðarinnar og það hefur sýnt sig. Hún gengur ekki upp á meðan verðtryggingin er við lýði í landinu. Þetta þarf að hugsa upp á nýtt. Það þurfa að vera til staðar fjölbreyttari búsetuúrræði fyrir fólk. Það vilja einfaldlega ekki allir eiga eigið húsnæði. Það vilja ekki allir þurfa að skulda í 40 ár til að eignast þak yfir höfuðið heldur vill margt fólk geta leigt sína íbúð, borgað af henni leigu og flutt svo úr henni eitthvað annað ef því býður svo við að horfa. Þessar úrbætur eru brýnar fyrir almenning í landinu.

Hér er ýmislegt fleira athyglisvert eins og að opna eigi eins og kostur er á aðkomu erlendra fjárfesta. Erlendir fjárfestar standa í röðum og bíða eftir því að komast með peningana úr landi í dag en ekki inn í landið, svo við höldum því til haga. Síðan eru það störfin. Hvert starf í endurbyggingunni í Straumsvík kostar 2.250 millj. og hvert starf í Helguvík kostar 296 millj. Hvert starf í orkufrekum iðnaði kostar eitt megavatt af orku. Ef hugmyndin er að nota orkuna til atvinnuuppbyggingar er hægt að fá miklu fleiri störf fyrir hvert megavatt af orku en fyrir þá orku sem fer í stóriðju. Ef hugmyndin er að nota peningana til að búa til mörg störf er hægt að búa til miklu fleiri en eitt starf fyrir 2.250 millj. Hvað er hægt að búa til mörg störf í kvikmyndagerð fyrir 2.250 millj.? Ég bara spyr.

Upptalningin heldur áfram: Orkuver tengd Bakka, gagnaver II, gagnaver III, Tomahawk, BPI, framleiðsluaukning, koltrefjaverksmiðja, pappírsverksmiðja, orkuver 200 megavött. Talandi um orku, þessi tillaga er algerlega orkulaus.