138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt starf fyrir eitt megavatt, það er ekki nákvæmt. Ég held að þetta séu tvö til þrjú störf fyrir eitt megavatt að meðaltali þegar talin eru bein og óbein störf.

Hvað varðar húsnæðisstefnuna er ég sammála því sem hægri maður að fólk eigi að hafa val. Einmitt í því augnamiði var reglum um Íbúðalánasjóð breytt þannig að leigufélög gætu fengið lánað hjá sjóðnum til að byggja upp íbúðarhúsnæði til að leigja síðan út. Sú þróun hefur verið síðustu ár. Jafnframt höfum við séð félög eins og Búsetafélögin skjóta hér rótum en aftur á móti hafa þessi úrræði sem eru valkostur við séreignarstefnu í íbúðarhúsnæði ekki verið sérstaklega vinsæl. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er auðvelt að fá leigt á góðum kjörum á Íslandi, fullvissað hann um það.

Hvað varðar þessa erlendu fjárfestingu, orkunýtingu og annað slíkt held ég að það sé mjög mikilvægt að sýna ekki hræðslu gagnvart peningum þótt þeir beri annað nafn en íslenskt. Erlend fjárfesting er ekkert verri eða betri en íslensk fjárfesting.

Að lokum langar mig, vegna þess að hv. þingmaður segir að þetta sé gamaldags úrræði en við erum væntanlega sammála um að þetta sé heildstæð stefna og planið gangi upp þrátt fyrir að vera gamaldags eins og þingmaðurinn heldur fram — mig langar til að auglýsa eftir þeim úrræðum sem hv. þingmaður hefur (Forseti hringir.) og hans hópur.