138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er þetta heildstæð stefna. Ég veit ekki hvort endilega ber að fagna því en Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa safnað vopnum sínum og telur að sókn sé besta vörnin. Það versta við þessa stefnu er kannski að sóknin er til suðurs þegar orrustan er í norðri og þess vegna gengur þetta einfaldlega ekki upp.

Hvað varðar leiguíbúðalán þá er það rétt að það var boðið upp á slík lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem menn gátu sótt um lán til byggingar leiguíbúða. Þetta var mjög þarft framfaraskref í því að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði en það sem hins vegar gerðist var að þegar Íslendingar urðu allt í einu svo gerviríkir að þeir gátu keypt sér hvað sem var ákváðu eigendur þessara leiguíbúða að setja þær allar á markað og selja þær þannig að leigumarkaðurinn sem átti að byggjast upp fyrir þessi hagstæðu lán hvarf. Þarna vantaði einfaldlega varnagla við reglurnar.

Svona er hægt að gera hlutina. Það er hægt að lána sérstaklega til leiguíbúða en þá þurfa að vera reglur um að það megi ekki henda út leigjendum óforvarandis og hikstalaust. Það gengur ekki upp. Við sem höfum búið annars staðar en á Íslandi vitum hvaða öryggi felst í því að geta leigt sér íbúð og treyst á að verða ekki hent út á götu eftir mánuð eða þrjá. Þannig leigumarkaður þarf að vera á Íslandi. Það er ekki spurning um framboð og eftirspurn þegar íbúðareigandi getur hent út leigjandanum sínum. Þetta er spurning um réttindi og réttindaleysi og það þarf einfaldlega að koma skikki á þau mál til að hægt sé að koma á valkosti í íbúðamálum.

Hvað varðar orkuna eru samkvæmt þessu í kringum 0,8–1 megavatt á hvert starf í þessari orkuuppbyggingu, sums staðar minna en það er talað um gríðarlega fjármuni í orkuframkvæmdum og orkuver sem hvergi virðast vera til á teikniborðinu nema í höfðum flutningsmanna.