138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer var hv. þingmaður búinn að borða áður en hann fór í ræðustól fyrst hann upplýsti að hann ætlaði að fara mjúklega að úr því að hann var orðinn saddur.

Varðandi stóriðjuna og störfin í kringum hana þá mega menn heldur ekki gleyma því að það eru mörg afleidd störf í kringum stóriðjuna. Menn verða líka að horfa sanngjarnt á þann þátt. Í stað þess að segja að þetta sé sama gamla tuggan hjá sjálfstæðismönnum að byggja þetta upp skulum við setja hlutina í samhengi. Það eru ákveðin verkefni milli erlendra fjárfesta, sveitarfélaga og ríkisvaldsins um hvernig skuli staðið að atvinnuppbyggingu. Það hefur verið unnið að þeim samningum bæði í Helguvík og á Bakka, það er búið að leggja tugi milljarða í þessi verkefni og þetta verður að halda áfram. Það þýðir ekkert að leggja stein í götu þessa verkefnis sem þegar er búið að taka ákvörðun um.

Ég vil árétta varðandi það þegar talað er um að menn séu mjög umhverfisvænir að á Snæfellsnesi er eina vottaða Green Globe-svæðið á Íslandi og það er undir forustu sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn stýra öllum þeim sveitarfélögum sem standa að þeirri vegferð sem er til mikils sóma fyrir land og þjóð. Menn mega ekki taka hlutina svona úr samhengi.

Síðan tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni um að við þurfum að ræða mun betur skuldavanda heimilanna. Þar eigum við að leggja saman krafta okkar og í okkar tillögum kemur fram að við viljum skipa þverpólitískan hóp til að fara einmitt yfir þessi mál. Ég kalla eftir hv. þingmanni og hans tillögum þar. Ég er líka sammála honum um að menn verði að komast út úr verðtryggingunum, það er grundvallaratriði. Þess vegna kemur það fram í tillögum okkar, þvert á það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að við óskum eftir liðsinni annarra og hugmyndum til að útfæra þær, m.a. frá hv. þingmanni, hagsmunasamtökum og fleirum. Þetta á að vera sameiginlegt markmið okkar.