138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:24]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni um að það sé ekki gerlegt og það eigi ekki að reyna að skattleggja sig út úr þessum vanda en þá þarf eitthvað að koma í staðinn. Ein af meginhugmyndunum er að auðlindir í eigu þjóðarinnar verði gerðar arðbærari með því að selja þær hæstbjóðanda frekar en afhenda þær einstökum hagsmunaaðilum eða fyrirtækjum.

Það hefur lengi loðað við Sjálfstæðisflokkinn að hann sé pólitískur armur LÍÚ. Stefna Sjálfstæðisflokksins, og Framsóknarflokksins áður fyrr, var sú að útgerðinni skyldi afhent auðlindin ókeypis á silfurfati og hún mætti síðan braska með hana að vild. Þetta rústaði sjávarbyggðum allt í kringum landið og gerði útgerðina að skuldugustu atvinnugrein þjóðarinnar í dag, við skulum ekki gleyma því. Þetta er stefna sem hefur einfaldlega brugðist og þess vegna þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Þú afhendir hana ekki sömu mönnum aftur, það gengur ekki upp nema menn vilji halda áfram að sóa hlutunum. (VigH: Rangt.) Ekki mikið lengur, nei, en það var líka stefna Sjálfstæðisflokksins sem ...

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmenn um að hafa ekki tveggja manna tal í þingsalnum.)

Varðandi annað sem hv. þingmaður sagði þá er ég búinn að gleyma því flestu. Það hefði kannski mátt vera minnisstæðara. Takk fyrir.