138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:26]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Yfirleitt er ekki ánægjulegt að horfa upp á aftökur en ég hafði óneitanlega nokkra skemmtun af því að sjá og heyra hv. þm. Þór Saari taka af lífi góðan slatta af þeim hugmyndum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt fram. Ég ætla samt ekki að gleyma mér í blóðþorsta við að gleðjast yfir því að sjá hugmyndir Sjálfstæðisflokksins allar með tölu fá blóðugan og verðskuldaðan endi heldur ætla ég að fagna þessum tillögum. Þótt megnið af þeim sé úrelt hugsun, fornaldarsjónarmið, dólgakapítalismi og umhverfissvínarí þá er þarna að finna glætu inn á milli. Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni og ég tek heils hugar undir það. Engu að síður finnst mér svolítið kaldhæðnislegt að það sem er kannski athyglisverðast í hugmyndum Sjálfstæðisflokksins eru hugmyndir um skattlagningu, þ.e. að breyta tilhögun skattlagningar á framlög og greiðslur til lífeyrissjóða og sömuleiðis hefur verið minnst á séreignarsparnað með svipuðum hætti. Þetta eru mjög athyglisverðar tillögur.

Ég vil taka fram og halda til haga að ég er þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum og í lífinu sjálfu eigi maður að taka það sem maður telur sig geta notað og reyna að gera það besta úr því en láta hitt fram hjá sér fara. Ég óska þess að ríkisstjórnin taki þessum tillögum með jákvæðu hugarfari, fari yfir þær í samvinnu við þá sem lögðu þær fram og síðar í samvinnu við aðra og reyni að velja úr það sem er brúklegt. Það mikilvægasta við þennan tillöguflutning að mínu mati er að í grundvallaratriðum er þarna að finna góða og nauðsynlega hugsun, sem sé þá hugsun að reyna að draga úr skatti á fjölskyldur og fyrirtæki og reyna að finna fleiri leiðir út úr kreppunni en niðurskurð, sparnað og skattpíningu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin setjist niður og hugleiði um stund í ró og næði hvort ekki sé tímabært að reyna að losa sig undan því þvingandi umsáturshugarfari sem hefur verið ríkjandi á lífdögum þessarar ríkisstjórnar. Það er mikilvægt fyrir stjórnina og ég tala af nokkurri umhyggju fyrir henni en mikilvægast er þetta þó og af mestri umhyggju tala ég vegna þjóðarinnar. Það er ekki hægt að bjóða íslenskri þjóð upp á það í því ástandi sem núna er að dögum saman séu einu fréttirnar af stjórnmálum landsins vangaveltur um hvort ríkisstjórnin skrimti til kvölds. Þetta er ekki boðlegt. Við lifum alvarlega tíma núna, ekki tíma sem prímadonnur í stjórnmálum eiga að nota til að skella hurðum og ganga út úr ríkisstjórn, væla um að þeim hafi verið stillt upp við vegg eða eitthvað því um líkt. Það er eðli stjórnmála, skoðanaskipti í stjórnmálum geta farið fram með mjög harkalegum og miskunnarlausum hætti vegna þess að það sama gildir um hugmyndir og skoðanir eins og í náttúrunni að þær hæfustu eiga að lifa af.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að ríkisstjórnin láti af þeirri þvermóðskupólitík sem hún hefur rekið og birtist í því að taka yfirleitt öllum hugmyndum sem ekki eru fæddar heima ýmist með hundshaus eða mjög illa. Það má deila um hversu skynsamleg og vel hugsuð Noregsferð Framsóknarflokksins var en mér fannst mikill óþarfi að taka henni af þeirri vanstillingu sem ríkisstjórnin gerði. Þessi þvermóðskupólitík er ekki sú pólitík sem þjóðin þarf á að halda núna. Við þurfum að leita allra lausna. Við þurfum að leita sem víðtækastrar samstöðu, vera reiðubúin að leggja fram allar okkar hugmyndir og þola það þó að megnið af þeim hugmyndum sem við leggjum fram séu skotnar í kaf vegna þess að það er öllum fyrir bestu að fram fari alvarleg leit að góðum hugmyndum. Á þessu augnabliki vill svo til að góðar hugmyndir eru verðmætari en peningar. Því miður virðast góðar hugmyndir vera af skornum skammti en það eru peningarnir líka. Mér finnst að með því að leggja fram þessar tillögur sínar hafi Sjálfstæðisflokkurinn boðið upp á þíðu sem geti opnað á aukið samstarf stjórnarandstöðu við ríkisstjórnina, samstarf og jafnvel samstöðu um ýmis grundvallaratriði í því hvernig við komum okkur út úr þeim vanda sem nú er við að etja.

Í þessum ræðustól tölum við oft um að þjóðin þurfi að stilla saman strengi sína og sameina krafta. Við skulum þó ekki gleyma því að við sem tölum þurfum líka að gera það og best væri að þau sem héðan tala til þjóðarinnar væru reiðubúin til að leiða þjóðina með góðu fordæmi. Við erum í sameiginlegri kreppu og við þurfum á því að halda að sameina krafta til að komast út úr þessari lægð. Ótrúlega mikill hluti af ræðutíma fer í furðulegt smáskítlegt þras um smáatriði eða aukaatriði sem engu máli skipta. Ég hvet þingmenn til að leggja þessi smávægilegu deiluefni sem engu máli skipta til hliðar, helst fyrir fullt og allt en alla vega á meðan ástandið er svo alvarlegt sem nú. Það verkefni sem er mest aðkallandi nú um stundir er ekki að hnotabítast um hvort sé betra, hægri eða vinstri. Við þurfum að nota báða handleggina, bæði þann vinstri og þann hægri til að koma okkur út úr kreppunni. Við gerum það ekki með annarri hendinni, um það er ég sannfærður. Ég vil að ríkisstjórnin taki í hægri höndina og líti á hana sem sáttarhönd í augnablikinu og að við reynum að sameinast (Forseti hringir.) að svo miklu leyti til að ganga tvíefld til þeirra verka sem öll þjóðin bíður eftir.