138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætar spurningar Aflétting gjaldeyrishaftanna átti að vera að við mundum ná þessum hræddu krónum inn í langtímaskuldabréf. Með því mundum við minnka þrýstinginn á krónuna og gætum aflétt höftunum. Að vísu er þarna millistig sem ég lýsti áðan með vaxtalækkun. Þessu er lýst vel í greinargerð með þingsályktunartillögunni og ég bendi á hana.

Varðandi reynslu Malasíu. Það er alveg rétt að Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, talaði af mikilli aðdáun um hvernig Alþjóðabankanum tókst að leysa gjaldeyrishöft í því landi og sagði að þeir hefðu náð sér jafnvel fyrr upp úr kreppunni en nágrannaríkin Tæland og Suður-Kórea. Það fylgdi kannski ekki sögunni hjá Stiglitz að Malasía hafði ekki úr eins háum söðli að detta og þau lönd. Þar var ekki jafnmikið af erlendum fjárfestingum inni. Almennt held ég að það að skattleggja útstreymi á gjaldeyri sé skaðlegt til meðallangs og langs tíma litið og að erlendir fjárfestar séu ekki öruggir um fjármuni sína. Ég held að við höfum gert nóg á þeirra hlut í bili alla vega.

Hvað varðar uppboðsmarkað er það hugmynd sem kom upp í Seðlabankanum en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagðist eindregið á móti því vegna þess að þeir telja, og ég tek undir þau sjónarmið að nokkru leyti, að allt sé til þess vinnandi að búa ekki til fleiri en eitt gengi í landinu.