138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi, eins og kom fram í andsvörum mínum við hv. þm. Bjarna Benediktsson fyrr í dag, þakka fyrir þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Um þær má segja að þarna er eitt og annað sem má teljast raunhæft, þótt það sé ekki beinlínis margt nýtt í þessum tillögum. Flest hefur ýmist komið fram áður af hálfu Sjálfstæðisflokksins eða frá öðrum í umræðu um efnahagsmál, svo mikil sem hún hefur verið á síðustu vikum og mánuðum. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við í efnahags- og skattanefnd munum taka þessar tillögur til vandlegrar umfjöllunar, ekki síst þann þátt sem lýtur að skattlagningu lífeyrisiðgjalda eða skattalegri meðferð á lífeyrisþættinum hér í samfélaginu. Ég held að þær hugmyndir séu þess eðlis að þær kalli á vandaða rýni, að við drögum fram hér á vettvangi þingsins kosti og galla við það að fara í einhvers konar skattlagningu á því sviði, hvort sem það er með sérstakri áherslu á séreignarlífeyrissparnaðinn eins og mér þótti formaður Sjálfstæðisflokksins boða við upphaf umræðunnar, og var kannski nokkur áherslubreyting frá því þegar tillögurnar komu fyrst fram, eða hvort menn líta til annarra aðferða sem aðilar vinnumarkaðarins hafa fremur nefnt frá því þessar hugmyndir komu fyrst fram.

Það gríðarlega mikla verkefni sem við stöndum frammi fyrir í tekjuöflunarmálum ríkissjóðs er einfaldlega með þeim hætti að hver einasta tillaga eða ábending um eitthvað sem skoða eigi í því efni er mikilvæg og við eigum að fara vel og vandlega yfir alla kosti og galla, ekki síst þar sem fyrir liggur að eitthvað er að sækja. Sannarlega er það í lífeyrissparnaðinum okkar því fyrir utan samtryggingarsjóðina — sem við hljótum auðvitað að leggja mjög mikla áherslu á að standa vörð um og gæta vel að því samtryggingarsjóðirnir í landinu eru sú stoð sem stendur uppi í íslensku samfélagi eftir hrunið og gríðarlega mikinn styrk er í þá að sækja. Þarna eru miklir fjármunir annars vegar og í séreignarsjóðunum hafa þeir til að mynda nýst í viðbrögðum við hruninu, með að vísu óverulegum heimildum en heimildum þó til fólks til að taka út úr sjóðunum og bregðast að einhverju leyti við hruninu. Úttekt upp á um eina millj. króna hefur líka skilað umtalsverðum skatttekjum í ríkissjóð sem ekki hafði áður verið gert ráð fyrir og hjálpar okkur við að rétta af núna í ár.

Ég fagna því líka að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggja áherslu á áframhaldandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég held að allir séu sammála um að áætlunin kemur til endurskoðunar. Þetta er auðvitað áætlun okkar, samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ýmsa þætti þarf að rýna í og seðlabankastjóri hefur m.a. nýverið fjallað um að það geti vel verið ástæða til að endurskoða fjárhæð lánanna, enda var áætlunin auðvitað upphaflega gerð á grundvelli frekar ófullkominna gagna og upplýsinga um stöðuna hér. Ýmislegt hefur breyst frá því hún var gerð og full ástæða er til þess að fara yfir það og skoða allar tillögur í því efni.

Mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn stígi svona ákveðið fram í þessari umræðu, sem hefur undanfarnar vikur á köflum verið mjög skringileg, og taki af öll tvímæli um að hann telji ákjósanlegt að við höldum áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að það sé mikilvægur þáttur í því að byggja upp trúverðugleika okkar. Sumir hafa í þessari umræðu talað eins og að við getum bara látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn róa og það sé ekkert mál. Flestir vita að það er mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika á Íslandi að við gerum það í samstarfi við þjóðir heims, í samstarfi við traustan og trúverðugan aðila sem býr að sérþekkingu sem er almennt viðurkennd. Það mun hjálpa okkur í leiðangrinum þó að við eigum auðvitað að hafa okkar eigin skoðanir á áætluninni, rökræða við sjóðinn um ýmis atriði, halda fram okkar sjónarmiðum o.s.frv. þá skiptir máli og væri ákjósanlegt að gera það í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Því er gott að heyra þessar áherslur hér. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn skera sig nokkuð úr í stjórnarandstöðunni með því að taka þessa ábyrgu afstöðu og falla ekki í þann popúlisma að benda á vonda menn í útlöndum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem gera okkur lífið óbærilegt. Hér varð hrun af okkar eigin völdum og það er verkefni okkar að vinna úr því. Til þess vinnum við að áætlun í samstarfi við erlenda aðila, um leið og við höldum því auðvitað til haga að það á að vera löngu búið að endurskoða þessa áætlun í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er mjög gagnrýnisvert að málið hafi ekki komið þar á dagskrá stjórnar fyrir löngu síðan.

Varðandi umfjöllunina um skattamálin yfir höfuð hjá Sjálfstæðisflokknum þykir mér skorta nokkuð á raunsæi, satt að segja, og hugmyndirnar að hluta til vera eins og við þekktum fyrir 2007, að við eigum að lifa af eintómum uppgangi og einhverri bólu. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Það eru ekki til neinar töfralausnir í tekjuöflun ríkissjóðs þótt það sé sjálfsagt að skoða lífeyrisþátt málsins. Skattar voru lækkaðir óhóflega í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það er einsýnt að við munum ekki standa undir því þjónustustigi sem við viljum hafa og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að það sé tiltölulega augljóst að flestar þær skattalækkanir sem við höfum ráðist í á síðustu árum þurfi að ganga til baka. Um það er OECD t.d. sammála okkur. Ég held að það sé einfaldlega óraunsæi af hálfu Sjálfstæðisflokksins að hafna því að við þurfum að fara í þann leiðangur. Við getum svo að auki þurft að skoða aðra þætti eins og auðlindagjöld, umhverfisgjöld, lífeyrissjóðina eða hvað annað sem mönnum dettur í hug, en það er alveg klárt að ef við eigum að standa undir þeirri samfélagsþjónustu sem kallað er eftir þurfum við að afturkalla þær skattalækkanir sem orðið hafa á síðustu árum, því miður.

Við skulum hafa í huga að ríkissjóður ætlar sér ekki nema liðlega 27% af þjóðarkökunni á næsta ári, þ.e. rétt liðlega fjórðung. Það hlutfall varð nærri þriðjungur þegar bólan var sem stærst. Sannarlega er ríkissjóður því að herða mjög að sér en ég held að það sé óhjákvæmilegt að horfast í augu við að um árabil lifðum við Íslendingar því miður um efni fram og um of á væntingum um uppgang og bólur í framtíðinni. Okkur er nauðsynlegt að taka okkur tak í þeim efnum og stilla neyslu okkar í samræmi við þær tekjur sem við höfum. Hluti af því er að styrkja tekjustofna ríkissjóðs með því að afturkalla óraunhæfar skattalækkanir jafnhliða því sem við förum í niðurskurð.

Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka svona eindregið undir þær tillögur um hagræðingu í ríkisrekstrinum sem hafa verið kynntar í fjárlagafrumvarpinu og treysti því að flokkurinn muni standa með ríkisstjórninni í þeirri erfiðu umræðu sem fram undan er um það efni. Það er sannarlega ekki létt verk að ráðast í þann samdrátt útgjalda sem nauðsynlegur er til þess að við færum tekjur okkar og gjöld nær hvort öðru.

Eins og ég hóf mál mitt á, virðulegi forseti, vil ég fyrst og fremst færa flutningsmönnum þakkir fyrir málefnaleg innlegg í þá mikilvægu umræðu sem við eigum fram undan og höfum verið í og vænti góðrar samvinnu við nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd um hana.