138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið mig ef hann telur að ég hafi á móti því að við Íslendingar nýtum orku í landinu. Það er langt í frá, auðvitað eigum við að nýta hana til atvinnuuppbyggingar og að því hef ég staðið bæði sem stjórnarmaður í Landsvirkjun og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um langt árabil.

Ég vara hins vegar við því að við reynum að leysa vanda okkar í ríkisfjármálum í dag með því að ímynda okkur miklar framtíðartekjur og mikla uppsveiflu á næstu missirum og árum eða einhverja bólu. Við þurfum að taka ákveðin skref í veruleika dagsins í dag, tekjuöflun á grundvelli tekna okkar í dag, niðurskurð á grundvelli útgjalda okkar í dag, til að rétta af þann rekstur sem við erum í. Mér finnst það ekki raunsætt hjá Sjálfstæðisflokknum að vera ekki tilbúinn til að afturkalla þær óraunhæfu skattalækkanir sem farið var í á allra síðustu árum.

Af því að við erum að tala um atvinnulífið þá er það býsna einkennileg afstaða að ekki eigi að skila inn í þetta sameiginlega verkefni rétt eins og ætlast er til að lífeyrissjóðirnir geri. Ef við skoðum nýjustu úttekt OECD til að mynda á skattgreiðslum úr atvinnulífi sjáum við að hér er hlutfallið liðlega 2% af landsframleiðslu. Það er hvergi lægra í öllum löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Víðast er þetta 1% meira en í Noregi kannski 4–5 sinnum hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér er. Það að fara í auðlinda-, orku- og umhverfisgjöld er því rétt að mjaka okkur í átt að því sem önnur ríki gera á því sviði. Mér finnst ekki raunsætt að vera ekki tilbúinn til að skattleggja neina þá tekjustofna sem við erum með í dag heldur vænta þess að við munum hafa tekjur fyrst og fremst af vexti (Forseti hringir.) á næstu árum.