138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað er meðalhófið í öllum hlutum best og það þarf að fara gætilega í álögur í nýjum gjöldum og sköttum. Það verður að leitast við að finna breiða tekjustofna og sækja inn á þau svið í samfélaginu þar sem eru fjármunir og hagnaður og það er mikilvægt að ekki sé skattlagt í drep. Sannast sagna er mikilvægt að það sé skattlagt hóflega en það er mikilvægt að atvinnustarfsemi hagnist, það sé hagnaður í samfélaginu og hjólin drífist áfram.

Hins vegar held ég ekki að það sé ástæða til að við vermum neðsta sætið í skattlagningu á þessu sviði. Ég held að það sé eðlilegt að landsmenn við þessar aðstæður geri kröfu til þess að sem flestir aðilar í samfélaginu reyni að deila þessum byrðum. Ég vek athygli á því að þau gjöld sem gert er ráð fyrir að auðlindirnar skili skattgreiðendum gera að verkum að það þarf að fara í nærri 2,5% minni hækkun á tekjuskattinum á allt venjulegt vinnandi fólk í landinu en ella þyrfti. Rúmlega 2% af brúttótekjum allra landsmanna er hægt að hlífa bara með því að gera svipaðar kröfur og gert er í þeim ríkjum sem skemmst ganga í skattlagningu innan OECD.

Ég held því að hér sé sannarlega ekki verið að ganga óhóflega langt. Ég held að það sé nauðsynlegt að við höfum ákveðið raunsæi í þessari skattlagningarumræðu vegna þess að við rekum ríkissjóð ekki með afgangi nema við séum tilbúin til að skattleggja þá tekjustrauma sem eru í dag, þó að auðvitað sé ekki nema fallegt að láta sig dreyma um nýja tekjustrauma og nýjar skatttekjur í framtíðinni.