138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. OECD hefur einmitt sagt að Íslendingar hafi það forskot að vera ríkt af náttúruauðlindum og á grundvelli þeirra munum við ná viðspyrnu í samfélaginu aftur. Þó er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er fátt í hendi í þeim efnum og auðveldara um að tala en í að komast að fá fyrirtæki til að koma til landsins og fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Dæmin hafa sýnt okkur það í gegnum árin. Við höfum ekki farið einfalda leið við að ná inn öflugum fyrirtækjum til samstarfs við okkur og það gerir þessa leið ríkisstjórnarinnar svo hættulega. Einmitt í þessari miklu baráttu og samkeppni sem við erum um þessi fyrirtæki er sú leið til þess fallin að fæla þau frá.

Við Íslendingar höfum haft ákveðið forskot gagnvart þessum fyrirtækjum sem felst fyrst og fremst í þeim stöðugleika sem hér hefur ríkt og því að fyrirtækin geta treyst því að við séum með umhverfi sem er ekki mikið rót á. Það höfum við haft umfram t.d. lönd í Suður-Ameríku og Afríku sem eru kannski rík að náttúruauðlindum að mörgu leyti en hafa ekki boðið upp á þann stöðugleika sem þetta land hefur boðið upp á fram að þessu. Einmitt það er núna að setja okkur við sama borð og þessar þjóðir og þá fer mælikvarðinn að vega þyngra sem vinnur í ódýrara vinnuafli og jafnvel ódýrari orku en við getum boðið hér. Orkuskattur eins og hann er orðaður er algerlega út úr kortinu við þær aðstæður sem hér eru núna. Við þurfum umfram allt að halda því samkeppnisforskoti sem við höfum haft og öll barátta okkar á að snúast um það. Leið okkar sjálfstæðismanna, tillögur okkar í þessum efnahagsmálum, snýr einmitt að því að halda stöðugleika gagnvart vinnumarkaðnum, (Forseti hringir.) aðilum vinnumarkaðarins og þeim fyrirtækjum sem gjarnan vilja leita hingað.