138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá að skjótast inn í umræðuna því ég hef því miður ekki aðstöðu til að vera hér í allan dag en ég fagna því að sjálfsögðu að fá þessar tillögur sjálfstæðismanna á borðið. Það er alltaf gagnlegt að fá hugmyndir fram og gefa tilefni til að þær séu ræddar og skoðaðar. Ég held að það sé að vísu ástæðulaust hjá þeim sem að þeim standa að láta eins og ekkert annað sé til staðar í þessum efnum. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kvartaði yfir því að engar heildaráætlanir lægju fyrir. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hlýtur að hafa verið annars staðar þegar lögð var fram skýrsla á þinginu sl. vor um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Það plagg á sér ekki hliðstæður í þingsögunni, að ég hygg, þar sem rammi um fjárlög næstu ára var lagður og þau markmið í aðhaldsaðgerðum, sparnaði og tekjuöflun sem við þyrftum að ná fram til að ná tökum á ríkisbúskapnum og koma honum í jafnvægi á næstu árum. Innan þess ramma er unnið og það er reyndar athyglisvert að ef maður tekur tillögur sjálfstæðismanna falla þær að mestu leyti inn í hann. Þar virðist vera um svipuð áform að ræða í sambandi við sparnað í ríkisrekstrinum og reyndar afkomubata ríkissjóðs þar sem talað er um 80–90 milljarða kr. á næsta ári. Sú tala er mjög hliðstæð þeirri sem fjárlagafrumvarpið byggir á, þ.e. 95 milljarða kr. afkomubata milli áranna 2009 og 2010.

Þegar tillögur sjálfstæðismanna eru skoðaðar sé ég að varðandi hagræðingarmarkmið í ríkisrekstrinum er þar mjög svipuð nálgun á ferðinni og sú sem er þegar til staðar og unnið er samkvæmt frá og með sparnaðaraðgerðunum sl. vor. Þar var að vísu um að ræða 5% í grunnrekstri mennta- og félagsþjónustunnar, 7% í menntun og 10% í öðrum þáttum. Markmiðið er að spara útgjöld upp á 35–40 milljarða miðað við fjárlög þessa árs sem er svipað eða reyndar ívið minna en fjárlagafrumvarpið sjálft gerir ráð fyrir. Meginmunurinn er kannski sá að sjálfstæðismenn telja sig geta náð þessum afkomubata ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Það byggir á tvennu. Stóra trixið í því, ef svo má að orði komast, er tvíþætt. Annars vegar að taka að láni framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga úr væntum skatttekjum lífeyriskerfisins upp á 30–40 milljarða og hins vegar að gefa sér fyrir fram að auknar framkvæmdir og fleira slíkt gefi fyrir fram í hendi 15 milljarða kr. tekjuauka á næsta ári. Þetta eru athyglisverðar hugmyndir en þær eru innan þessa ramma þegar betur er að gáð.

Varðandi lífeyrissjóðahugmyndina fagna ég því að tillagan er sett fram með opnari hætti en sjálfstæðismenn gerðu sl. vor. Í raun og veru er skilið eftir opið og velt upp að þar megi hugsanlega fara mismunandi leiðir til að sækja þetta fé inn í lífeyrissjóðakerfið en um það snýst þetta. Mér finnst það vera allrar skoðunar vert og í raun og veru er þegar í gangi ákveðin aðgerð í þeim efnum að heimila útgreiðslu séreignarsparnaðar, aðgerð sem gengur vel og mun fleiri hafa nýtt sér en ráð var fyrir gert í byrjun. Um eða yfir 40 þúsund manns nýta sér eða hafa sótt um það úrræði. Ég hef fengið tölvupósta frá fjölmörgu fólki sem þakkar fyrir þetta úrræði og upplýsir að það hafi breytt miklu fyrir það til að takast á við sín fjármál og fleytt þeim í gegnum erfiðleikana. Fleiri en maður gat átt von á nýta sér ekki bara þennan möguleika í daglegum rekstri eða eyðslu heldur beinlínis nýta tækifærið til að lækka skuldir og búa þannig í haginn fyrir sig og komast í gegnum erfiðleikana. Mér finnst sjálfsagt mál að skoða hvort framhald geti orðið á þeirri aðgerð. Hún skilar tekjum svo nemur allt að sex milljörðum fyrir ríkið og þremur milljörðum fyrir sveitarfélögin miðað við það umfang sem nú er á árinu 2009 og inn á árið 2010.

Ég held hins vegar að menn þurfi að hugsa sig mjög vel um áður en farið verði í þá grundvallarkerfisbreytingu á skattalegri meðferð lífeyrisgreiðslna sem sjálfstæðismenn lögðu til í vor. Þar er að mjög mörgu að hyggja. Þá eru menn í raun fyrst og fremst að taka að láni væntar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni. Menn draga úr sparnaðinum og það er vissulega viðurkennt í tillögunni, ég sé það. Þetta hefur umtalsverð áhrif. Þetta eru stærðir af því tagi í hagkerfinu að það þarf að huga vel að því hvað þá gerist. Þá hægir auðvitað á lífeyrissjóðsuppbyggingunni og það þarf að hyggja að aldurssamsetningu þjóðarinnar og því eðli kerfisins að hver kynslóð taki sparnaðinn með sér og eigi hann til staðar þegar þar að kemur. Þessi áhrif á væntar framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga eru auðvitað eitt skærasta ljósið í skammdeginu í þessum efnum þegar við horfum til þess hvernig ríki og sveitarfélög á komandi árum koma til með að axla skuldir sínar og greiða þær niður. Þá eru þessar væntu og auknu tekjur ríkis og sveitarfélaga ár frá ári kannski einn helsti styrkur kerfisins.

Í þriðja lagi er uppbygging á lífeyrissjóðakerfinu ávísun á sparnað í útgjöldum bótakerfanna í vaxandi mæli á komandi árum þannig að það þarf að hyggja að mjög mörgum þáttum. Þótt erfiðleikarnir séu miklir í núinu og eðlilegt sé að leita leiða sem hafa í för með sér minni sársauka en skattahækkanir sem sjálfstæðismenn eru ekki mjög hrifnir af þá þarf engu að síður að hugsa til framtíðar og velta vöngum yfir því hvaða afleiðingar kerfisbreytingin sem slík hefur. Það má heldur ekki taka neina áhættu með því að rjúfa þann sáttmála kynslóðanna sem í raun er innbyggður í lífeyrissjóðakerfið. Við verðum að hafa fullvissu fyrir því ef við förum þá leið að gera skil í kerfinu og skipta því upp, því það yrði að gera og það er viðamikil kerfisbreyting, að við gætum síðan staðið við fyrirheitin um að útgreiðslurnar yrðu skattfrjálsar þegar þar að kemur. Það væri ekki gaman ef svo færi eftir sem áður hjá okkur að menn teldu sig ekki hafa ráð á því þegar að því kæmi að hverfa ætti frá sköttuðu útgreiðslunum yfir í hinar skattfrjálsu í fyllingu tímans

Hvort lífeyrissjóðirnir geta með öðrum hætti, t.d. eins og þeim sem hér er bent á, að skoða það að færa fram og greiða út væntar skatttekjur séreignarsparnaðarhlutans er ein möguleg leið að sjálfsögðu. Þar eru miklir fjármunir á ferð. Auðvitað er ekkert óeðlilegt að velta þá upp möguleikunum sem einfaldlega eru fólgnir í því að spyrja spurningarinnar: Höfum við ráð á jafnmikilli og hraðri uppbyggingu í gegnum þetta erfiðleikatímabil og er í gangi í kerfinu í dag, t.d. með því að fella niður skattfrelsi séreignarsparnaðarins á báðar hliðar þannig að þeir peningar kæmu þá til ráðstöfunar. Það yki kaupmátt og skatttekjur en þeir sem vildu engu að síður leggja til hliðar gætu áfram gert það með frjálsum hætti en án skattfrelsis.

Það má líka velta fyrir sér áhrifunum af því að lækka einfaldlega lágmarksskyldusparnaðinn. Hvert prósentustig í inngreiðslum setur mikla fjármuni í umferð, 7 milljarða kr. hið minnsta, og af því leiðir kaupmáttaráhrif og skattáhrif. Ýmsar leiðir eru til í þessum efnum, jafnvel að fjármagnstekjuskattur kæmi á ávöxtunarhluta lífeyrissjóðanna eins og sums staðar er. Allt þetta finnst mér geta komið til skoðunar ef menn fara inn á þessa braut á annað borð. Að sjálfsögðu er eðlilegt að lífeyrissjóðirnir séu hafðir í huga, jafnstórir og mikilvægir og þeir eru í þessum efnum.

Margt annað í þessari tillögu er hliðstætt því sem er í gangi hvort eð er. Hér er fjallað um skuldavanda heimilanna. Kynntar hafa verið ráðstafanir sem koma á borð þingmanna innan skamms. Hér er rætt um gjaldeyrishöftin og hvernig eigi að afnema þau. Þar hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar og ákveðin áætlun er í gangi. Menn tala um mikilvægi þess að lækka vexti og við vitum mörg hver hvað þarf til þess.

Varðandi áherslur á framkvæmdir og að halda uppi eftirspurn í samfélaginu er það auðvitað það sem við vildum. Ef ríkissjóður og sveitarfélög væru fær um að standa fyrir umtalsverðum hvetjandi aðgerðum við þessar aðstæður þá væri það hið æskilega en þannig er staðan ekki beinlínis. Þess vegna eru í gangi viðræður við lífeyrissjóðina um að þeir komi að fjármögnun ýmissa framkvæmda til þess að ríki og sveitarfélög geti dregið sig meira til baka, sinnt sínum brýnustu þjónustuverkefnum og beint kröftum sínum að því en aðrir aðilar leggi þá sitt af mörkum til að halda uppi eftirspurn og framkvæmdum.

Ég tel aðeins einn umtalsverðan veikleika vera í þessum áherslum Sjálfstæðisflokksins og það er trú þeirra á að fáar stórar framkvæmdir geti leyst þennan vanda. Ég held að við megum ekki missa sjónar af því að mikilvægast af öllu í endurreisninni er að hið almenna atvinnulíf, nýsköpun og þróun á fjárfestingum í því á breiðum og almennum grundvelli komist í gang. Sem betur fer eru ýmsir góðir hlutir að gerast í útflutnings- og samkeppnisgreinum, ferðaþjónustu, matvælaiðnaði, framleiðsluiðnaði og fjölmörgum fleiri sviðum. Satt best að segja verð ég (Forseti hringir.) bjartsýnni með hverjum degi sem líður eftir því sem ég fæ fleiri góðar fréttir úr þeirri átt.