138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vandlifað í þessum heimi. Ég reyndi að vera ákaflega jákvæður í garð þessarar tillögu sjálfstæðismanna vegna þess að mér finnst í sjálfu sér gott að menn leggi sínar hugmyndir á borðið. Sjálfur var ég oft í þeim sporum að flytja tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum á árunum 2005–2008 sem ég leyfði mér að halda fram að menn hefðu mátt veita meiri athygli á þeim tíma. Þar var lagt til að ýmislegt væri gert í sambandi við ofvöxt bankakerfisins og áhættu sem þar var að myndast en það var ekki gert með slæmum afleiðingum. Þær voru reyndar þykkari en þessi tillaga sjálfstæðismanna vel að merkja. Ég verð þó að hryggja þá með því að kannski var það misskilningur af minni hálfu að vera svona jákvæður. Ef á að túlka það þannig að ég skrifi upp á þetta sem skothelda áætlun hjá sjálfstæðismönnum þá geri ég það ekki. Í henni eru mörg göt að mínu mati. Ég tel t.d. að (ÞKG: Þú verður að ákveða hvort þú ert að svara honum eða mér.) það að gera þetta án nokkurrar tekjuöflunar sé algerlega óraunhæft.

Tillögurnar um skuldaaðgerðir heimilanna voru unnar af ráðherranefnd sem leitaði fanga víða og ræddi við fjölmarga hagsmunaaðila. Það var kannski ekki þverpólitískt samstarf í skilningnum milli stjórnar og stjórnarandstöðu inni á þingi en þetta var unnið með mjög mörgum aðilum og hagsmunasamtök heimilanna, aðilar vinnumarkaðarins og fjölmargir fleiri komu að því.

Varðandi aflamarkið held ég að menn verði að stíga varlega til jarðar. Ég get ekki gefið upp afstöðu mína til þess hvort á einu bretti eigi (Forseti hringir.) að hækka kvóta í öllum tegundum án tillits til ástands viðkomandi fiskstofna. Það er ekki hægt.