138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil endurtaka að tillögur um úrbætur vegna skuldavanda heimila og reyndar fyrirtækja hafa auðvitað verið unnar í samráði við þá aðila sem þurfa að koma að framkvæmd þeirra. Þar hefur viðamesta samstarfið verið við banka og fjármálastofnanir, að laða alla þá aðila til samstarfs um aðgerðir sem væru samræmdar og samstilltar, sem og helstu hagsmunasamtök sem að þessu koma.

Ég held að það sé óraunsætt að halda því fram að hægt sé ná tökum á þessum vanda án þess að fara í tekjuöflunaraðgerðir. Mér finnst það líka dálítið athyglisvert sjónarmið ef menn telja að það sé bannorð, t.d. eitthvað af skattalækkunum frá umliðnum árum, gagnvart þeim aðilum sem eru þó í færum til að borga áfram skatta, eru með háar tekjur eða góða afkomu, að þeir geri það. Blönduð leið af þessu tagi. Það að taka að láni væntar skatttekjur framtíðarinnar og hlífa sér þar með við því í núinu er í raun og veru tillaga sjálfstæðismanna. Ég útiloka ekki að slíkt sé skoðað sem hluti af blandaðri lausn en ég held því miður að þetta sé ekki svo einfalt (Forseti hringir.) að það sé hægt að leysa vandann þannig á einu bretti.