138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera við þessa umræðu og taka þátt í henni. Ég tel að það sé mjög gott og þakka honum fyrir það. Hins vegar kemur það svo sem ekkert á óvart að ég og hæstv. ráðherra erum og verðum víst sammála um fátt sem viðkemur þessum efnum.

Hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu „að gera þetta án nokkurrar tekjuöflunar [er] algerlega óraunhæft“ og á þar við að við sjálfstæðismenn leggjum ekki til skattahækkanir við að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum og koma okkur út úr þessari kreppu. Þá spyr ég hæstv. ráðherra, af því að ég er með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir framan mig: Telur ráðherrann það vera fullkomlega raunhæft að ætla að fá 40 milljarða til viðbótar í skatttekjur af tekjuskatti einstaklinga þegar laun eru að lækka og tekjur almennt í þjóðfélaginu eru að lækka? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að ná því? Hin spurning mín til hæstv. ráðherra er: Telur hann raunhæft að fá 16 milljarða með nýjum orku- og auðlindasköttum sem samkvæmt frumvarpinu þyrftu 1 kr. á kílóvattstund? (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra sló það út af borðinu í umræðum fyrr í dag.