138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra vegna þess að hann svaraði henni ekki: Telur hæstv. ráðherra raunhæft að fá 40 milljarða í auknar skatttekjur með tekjuskatti einstaklinga þegar á landinu eru lækkandi tekjur og atvinnuleysi? Með pólitíkinni sem Vinstri grænir reka í atvinnumálum? Hitt líka varðandi auðlindaskattinn. Mér fannst kostulegt að þegar ég spurði hæstv. ráðherra um skattahækkanir og skattapólitík ríkisstjórnarinnar og horfði til framtíðar fór hann að tala um fortíðina og hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerði þegar hann var í ríkisstjórn. Ég held, virðulegi forseti, að þetta komi úr hörðustu átt vegna þess að ég veit ekki betur en sá ráðherra sem ég á hér orðaskipti við sé sá ráðherra sem stóð hér og æpti sig hásan yfir því hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri forpokuð og ömurleg stofnun. Núna gerir hann allt til að viðhalda samningnum við hann sem var komið af stað í fyrri ríkisstjórn, til að allrar sanngirni sé gætt. (Forseti hringir.) Auk þess veit ég ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra sé á góðri leið með að fara með okkur öll inn í Evrópusambandið en ég vissi ekki til að hann væri stuðningsmaður þess.