138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki skrifað í greinargerðina, það er hárrétt, en það sem við leggjum áherslu á er að bæta 40.000 tonnum við þorskinn. Það hefur þó ekki áhrif á stofnstærðina sem slíka heldur erum við að seinka uppbyggingunni ef það má orða það þannig. Þá hefurðu það. Þessar tölur eru teknar beint upp úr skýrslum Hafrannsóknastofnunar.

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því og sé kannski í raun og veru skelkaður við að fara í þessar gríðarlegu skattahækkanir á einstaklinga og fjölskyldur í landinu við þær aðstæður sem nú eru uppi, þ.e. minnkandi kaupmátt og aukið atvinnuleysi. Er hann ekki hræddur við það? Eins hver skoðun hans er á því, sem komið hefur fram á undanförnum dögum, hvort ekki mætti endurskoða áætlun AGS og hugsanlega minnka þessi lán sem menn stefna á að taka og taka frekar lánalínur. Hver er skoðun hans á því?