138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hef ég ekki áhyggjur af því að bæði skattahækkanir og niðurskurðaraðgerðir hafi óæskileg áhrif í sjálfu sér og líka í efnahagslegu hagstjórnarlegu tilliti? Jú, ég hef það. Ef við ættum eitthvert val þá mundum við ekki gera þetta en aðstæður okkar eru eins og þær eru. Menn verða að horfast í augu við það. Íslenska ríkið er ekki í aðstöðu til þess að velja sér góðar aðgerðir í þessum efnum. (Gripið fram í.) Þær marka okkur mjög þröngan bás, þessar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að takast á við vandann núna og við getum ekki frestað því, þá fer mjög illa á skömmum tíma. Hallarekstur af því tagi sem við sáum á ríkissjóði á síðasta ári og þessu ári kollsiglir okkur mjög hratt í bullandi vaxtakostnaði.

Varðandi gjaldeyrislánin er það einmitt til endurmats hversu mikið af raunverulegum forða við þurfum, lánsréttur eða línur ef þær væru í boði eru að sjálfsögðu mikilvægar. Það mun aldrei verða þannig að menn taki meiri lán en þeir telja sig þurfa. Í reynd er getur lántökuréttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virkað eins og lánalínur. Við þurfum ekki að hefja meira en við viljum hverju sinni (Forseti hringir.) af þeim lánsrétti sem við eignumst þar. Norðurlandalánin eru aðeins öðruvísi, þar þurfum við að taka vissan lágmarksskammt af hverjum fjórðungi ef við ætlum að nýta þau á annað borð. Í raun má þó þróa þetta meira í áttina frá því að taka öll þessi lán og yfir í að eiga lántökurétt. (Forseti hringir.) Ég tel mjög líklegt að það verði niðurstaðan.