138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir þá ágætu vinnu sem liggur að baki því plaggi sem hér er til umræðu. Vitaskuld er ég ekki eins og við er að búast sammála öllu sem þar kemur fram. Ég tel að þetta sé ágætt innlegg í umræðuna og ekki nema gott eitt um það að segja að stjórnarandstaðan skuli leggja á sig þá vinnu sem þarf til að koma með tillögu sem þessa. Ég vil af því tilefni taka undir margt af því sem hv. þm. Þráinn Bertelsson ræddi áðan um samspil og samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu og það hvernig menn ættu ekki, hvorum megin víglínu sem þeir eru, ávallt að slá út af borðinu allt sem kemur yfir víglínuna frá þeim sem hinum megin sitja.

Hvað sem því líður ætla ég ef tíminn leyfir að fjalla stuttlega um tvö eða þrjú atriði af þeim sem fram koma í þessum tillögum og næ augljóslega ekki að fjalla um nema lítinn hluta plaggsins.

Það fyrsta snýr að því hvort æskilegt sé að í stað þess að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum látum við nægja að hafa lánsloforð eða lánalínur. Vegna þessa er rétt að benda á að í fyrsta lagi liggur ekki fyrir að lánveitendur séu reiðubúnir að veita okkur lán á þessu formi, þ.e. að veita okkur lánalínur í stað lána sem við greiðum vexti af, a.m.k. liggur ekkert fyrir að þeir séu tilbúnir til þess að öllu leyti en fyrir liggur að það kann að vera hægt að semja um að hluti lánanna sé afgreiddur með þeim hætti.

Síðan er jafnframt rétt að vekja athygli á því að almennt gildir það í viðskiptum sem þessum, ekki bara á óvenjulegum tímum eins og þeim sem við lifum heldur almennt í fjármálakerfinu, að lánalínum fylgir ákveðinn kostnaður, þ.e. gjald sem lánveitandi innheimtir af lántaka og endurspeglar þá í raun kostnað lánveitanda af því að afla sér langtímafjármagns og liggja með það laust og geta afhent það fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Því er við því að búast að við þyrftum að einhverju marki að greiða slíkan kostnað fyrir lánalínur sem þyrfti ekkert endilega að vera minni en sá sem við mundum þurfa að greiða ef við tækjum langtímalán og ávöxtuðum það í öruggum eignum til skamms tíma, sem er það sem verður að gera við gjaldeyrisforða. En ég vil alls ekki láta sem svo eða skilja þann skilning eftir að ég sé alfarið á móti þessari hugmynd. Ég tel að eðlilegt sé að við reynum að hafa a.m.k. hluta af því fjármagni sem tengist áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessu formi. Auðvitað munum við reyna að gera það með sem minnstum tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Raunar vil ég bæta því við að ég tel að afar litlar líkur séu á því að útkoman úr þeim lánasamningum verði sú að við tökum meira en fimm milljarða dollara lán. Ég held að við munum aldrei nýta alla þá upphæð sem lán og tel raunar að við getum fært rök fyrir því að við höfum ekki þörf fyrir slíka upphæð, nema að allar efnahagsforsendur reynist rangar, þ.e. ástandið hér verði mun verra en menn gera nú ráð fyrir.

Annað atriðið sem ég vil víkja að er hugmyndin sem fram er sett um að taka á þeim vanda sem stundum er nefndur krónubréfavandi, eða vandinn vegna hræddra króna, með því að fá þá sem eiga slíkar krónur til að skipta þeim og skuldabréfum til 4–8 ára í erlendri mynt, sem þá væntanlega verður hægt að taka út úr landinu í erlendri mynt þegar bréfin koma á gjalddaga. Því er til að svara að þetta er góðra gjalda vert sem hugmynd og raunar er þetta ein af þeim aðferðum sem nota á til að taka á þeim vanda og er inni í þeim hugmyndum sem Seðlabankinn hefur kynnt um hvernig unnið verður að afnámi haftanna. Ég tel hins vegar afar litlar líkur á því að þetta sé sú allsherjarlausn sem virðist mega lesa út úr plagginu. Það má m.a. byggja einfaldlega á því að ef þeir sem eiga þessar krónur telja, eins og lagt er upp með í plagginu, að gjaldeyrishöftin verði afnumin mjög fljótlega, þá kann að vera að þeir sjái sér hag í því að bíða frekar en taka slíku tilboði um langtímaskuldabréf og losna þá mun fyrr heldur en ef þeir hefðu bundið fé sitt til 4–8 ára. Þó að vextir séu lækkaðir í krónum er ólíklegt að það dugi til þess að fæla menn yfir í þessa lausn, ef við orðum það svo, vegna þess að lágir vextir skipta litlu máli ef þeir eru einungis til skamms tíma. En lausnin er í grundvallaratriðum ágæt. Ég tel bara að hún dugi ekki sem sú heildarlausn sem gefið er í skyn í því plaggi sem hér er til umræðu.

Raunar vil ég bæta því við fyrst við erum farin að ræða þessar hræddu krónur, að mat mitt er að þær séu talsvert kjarkmeiri en menn virðast telja. Því eru góðar líkur á að þær mundu ekki allar flæða úr landi í gegnum þann þrönga krana sem íslenski gjaldeyrismarkaðurinn er þótt höftunum verði aflétt.

Það síðasta sem ég ætla að víkja að er reyndar talsvert flókið mál og næ ég líklega ekki að gera því góð skil á þeim stutta tíma sem eftir er. Það er það sem kallað er í plagginu kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Það er reyndar ekki útfært þar en áður hefur komið fram að til greina komi að leggja skatt á iðgjöld frekar en útgreiðslur úr lífeyrissjóðum og flýta þannig tekjustreymi til hins opinbera.

Um þetta er hægt að tala í löngu máli en í grundvallaratriðum verðum við að átta okkur á að í því verkefni að leysa fjármál hins opinbera á líðandi stundu hlýtur alltaf að þurfa að horfa ekki bara á tölur ársins og efnahagsreikning ríkisins eins og hann er á hverjum tíma heldur einnig fram á við, á tekjustreymi og útgjaldastreymi eins og því er spáð til alllangs tíma. Með því að færa til tekjur á þann hátt, færa þær fram eða nær okkur í tíma, þá eru menn í raun ekki að bæta stöðu hins opinbera þegar litið er á heildarmyndina. Hún að vísu lítur aðeins betur út á pappírnum þegar ársreikningur eða ríkisreikningur hvers árs er gerður upp en heildarstaðan breytist í rauninni ekkert. Það er bara búið að færa tekjufærslu til í tíma. Það er á alveg sama hátt hægt útgjaldamegin að seinka gjaldfærslu gjaldaliða með svokallaðri einkafjármögnun, þ.e. að í staðinn fyrir að reisa eitthvert mannvirki eins og brú, flugvöll eða höfn með einhverju útboði og gjaldfæra það allt saman þegar mannvirkið er tilbúið, þá er það leigt af einkaaðilum til langs tíma og síðan eru einungis gjaldfærðar leigugreiðslurnar, sem þýðir að gjöld falla til á pappírnum mun síðar en ella en í reynd er ekkert verið að bæta stöðu ríkissjóðs þótt hún líti betur út þegar til skamms tíma er litið.

Sú hugmynd að innheimta í reynd hluta af þeim varasjóði sem ríkið á utan efnahagsreiknings, ef má orða það svo, því að lífeyrissjóðir landsins eiga mikið af óskattlögðu fé, þá eru menn í reynd ekki að bæta heildarstöðu ríkissjóðs þegar allt er tekið til greina. Menn eru hins vegar að láta ríkissjóð líta betur út þegar til skamms tíma er litið. Einnig má svo sem segja að með því að skattleggja ekki iðgjöld séu menn að láta ríkissjóð líta verr út en staða hans í reynd er, vegna þess að menn eru þá að búa til eign fyrir ríkið sem er hvergi skráð í ríkisreikningnum. Þó að hún sé að einhverju marki vonarpeningur verður samt að viðurkennast að voða litlar líkur eru á því að miklar greiðslur úr lífeyrissjóðum landsmanna muni skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum á næstu áratugum.

Því má allt eins spyrja: Er ekki skynsamlegra, í staðinn fyrir að ganga í gegnum mjög róttækar breytingar á lífeyriskerfinu til að ná fram á pappírnum betri stöðu sem bætir í reynd ekkert stöðu ríkisins, að ríkið taki einfaldlega lán hjá lífeyrissjóðunum — reyndar er óhjákvæmilegt að ríkið taki umtalsvert fé að láni hjá lífeyrissjóðunum til að fjármagna hallarekstur sinn á næstu árum — og greiði síðan þau lán niður með m.a. tekjum af skattlagningu lífeyrisgreiðslna á næstu árum og áratugum?