138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka viðskiptaráðherra fyrir ágætisinnlegg.

Ferðalangur sem kemur að hóteli með óendanlega mörgum herbergjum spyr hvort hann geti fengið gistingu. Hóteleigandinn svarar: Nei, það eru öll herbergi full. Þá svarar ferðalangurinn: Biddu þá alla að færa sig um eitt herbergi vegna þess að það eru óendanlega mörg herbergi.

Þessi greining viðskiptaráðherra gerir ráð fyrir því að líftími Íslands sé endanlegur og hann veit að það er verið að færa til í tíma. Þetta eru því ekki pappírsviðskipti, ekki nema líftími Íslands sé endanlegur. Auk þess er þetta ekki tilfærsla í tíma sem kemur vel út á pappírum út af vaxtakostnaðinum, við skuldum næstum því tvö þúsund milljarða. Með því að gera þetta getum við lækkað vaxtakostnaðinn umtalsvert sem er næstmesti útgjaldaliðurinn núna. Þetta þekkir hann allt saman, sérfræðingur í „overlapping generations“ módelum.

Hvað varðar fjármögnunina er alveg rétt hjá ráðherranum að þetta er engin lausn. Hugsunin er sú að gefin verði út bréf sem eru aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta, lækkaðir vextir þannig að raunvextir hjá þeim verði stórkostlega neikvæðir í krónum svo að þeir hrekist yfir í evrur, evru/ríkisbréfin, og þegar nægilega mikill hluti þeirra er kominn yfir í evru/ríkisbréfin eru gjaldeyrishöftin afnumin. Ef þeir vilja vera á neikvæðum raunvöxtum, þá þeir um það, en sem fjárfestar munu þeir eflaust taka þessu tilboði.