138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:24]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mér endist örugglega ekki tíminn til að fara í smáatriðum yfir hótelsögu þingmannsins, ég ætla að spara mér það. Ég leyfi mér þó að fullyrða að niðurstaða mín byggði engan veginn á því að endalok Íslands væru í nánd eða fyrir lægi hvenær þau yrðu. (Gripið fram í.) Við skulum fara yfir málið þegar okkur gefst betri tími til þess.

Tvennt varðandi vexti. Það er grundvallarmisskilningur að ríkið spari vaxtakostnað með því að færa til tekjur með þeim hætti sem hér er rætt um, þ.e. með því að færa skattlagningu á lífeyristekjum fram í tíma. Það er af þeirri einföldu ástæðu að eignir lífeyrissjóða ávaxtast. Þegar greiddir eru skattar af lífeyrisgreiðslum, þá hækkar það með tíma einfaldlega í takti við ávöxtun lífeyrissjóðanna. Í reynd breytir það væntanlega sáralitlu fyrir ríkið, jafnvel þó tekið sé tillit til vaxta, hvort tekjurnar eru innheimtar nú eða eftir einhver ár eða áratugi eins og núgildandi skattareglur kveða á um.

Síðan önnur ábending um hugmyndina um skuldabréf fyrir hræddu krónurnar og hvernig hægt er að fæla fólk yfir í skuldabréf með lágum vöxtum. Það er auðvitað alveg rétt að almennt væri hægt að fæla fjárfesta úr einum fjárfestingarkosti yfir í annan með því að hafa lága vexti á öðrum og hærri á hinum. Það gefur augaleið og ég dreg það ekkert í efa. En hér þarf að hafa í huga að krónubréfin eru ekki einu eignirnar sem geta farið úr landi. Ef menn hefðu mjög lága og mjög neikvæða vexti á krónum almennt, þ.e. neikvæða raunvexti, er allt eins víst að Íslendingar vildu einnig fara með sitt fé úr landi og þá mundum við vera búin að auka þennan vanda til muna, alls ekki leysa hann.