138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var beðin um að láta akademíuna vera úti í sal og að hlustað verði á mig meðan ég kem með ábendingar mínar.

Búið er að fara yfir lífeyrissjóðsleið okkar sjálfstæðismanna, það var gert áðan, ég ætla ekki að fara út í hana. En ég hjó eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talaði um víglínur strax í upphafi ræðu sinnar — ég vil sérstaklega þakka fyrir að hann skuli vera hér og taka þátt í umræðu með okkur um efnahagstillögur okkar — og að fara yrði yfir víglínurnar. Já, það er alveg rétt, en það sem við höfum hins vegar orðið vör við í hverju málinu á fætur öðru að ekki er hlustað á okkur, það er ekki einu sinni talað við okkur. Við höfum verið að koma fram með tillögur, m.a. strax í sumar, og af því utanríkisráðherra var hér á vappi áðan, þá fagnaði hann tillögum okkar sjálfstæðismanna og fleiri. Hluti af tillögum okkar var að setja á stofn og setja á laggirnar þverpólitískan stýrihóp, vinnuhóp, til að fara yfir allar þær tillögur, allar þær fjölmörgu en ólíku tillögur sem ýmsir aðilar hafa verið að setja fram varðandi skuldavanda heimilanna. Það hefur ekki enn þá hlotið náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér og skiptir mestu núna og er þungavigt í okkar plaggi er atvinnustefnan. Þá komum við að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar að mínu mati mun stuðla að því að við verðum seinni að koma okkur út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir en ella væri.

Ég spyr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé sammála því að fara þá leið hvað varðar ofurskatta á orkufyrirtæki, að ná þar í 16 milljarða. Og hvort það sé raunhæft og raunhæf áætlun í ríkisfjármálum að krefjast 16 milljarða hvað þetta varðar og þá hversu háa skatta hann telur vera raunhæfa sem slíka.

Síðan vil ég spyrja hvort hann telji það líka farsælt að einn ráðherra í ríkisstjórninni skuli vera að tala niður orkufyrirtæki, sem eru okkur lífsnauðsynleg, núna þegar við þurfum að fara í verulega uppbyggingu? (Forseti hringir.)