138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikill misskilningur ef menn halda að sjávarútvegs- eða orkufyrirtækin greiði ekki skatta í ríkissjóð. Í máli hæstv. forsætisráðherra voru nefndir 16 milljarðar í orkuskatt og í raun í máli hæstv. fjármálaráðherra og núna efnahags- og viðskiptaráðherra. Þessi 16 milljarða tala er ekki raunhæf, hún er sett fram en það á greinilega eftir að útfæra hana.

Ég hef tvær spurningar. Telur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki hættu á því að með þessari skattlagningu eins og hún er lögð upp séum við að skattleggja okkur út úr samkeppnishæfni okkar varðandi orkumálin? Í öðru lagi vil ég sérstaklega benda á að við sjálfstæðismenn — það voru ekki allir sammála því en við sjálfstæðismenn, og þá komum við að vinnubrögðum, í samvinnu við aðra stjórnmálaflokka, stjórn, stjórnarandstöðu og aðila málsins á sínum tíma, lögðum eftir nokkra missira yfirlegu á auðlindaskatt sem er skattur á sjávarútveginn. (Forseti hringir.) Það var gert að yfirlögðu ráði eftir mikið samráð. Það getur vel verið að við þurfum að tala um orku- og auðlindaskatt (Forseti hringir.) en það á ekki að gera það svona. Það verður að hafa víðtækt samráð og það verður að vera ígrundað og hugsað vel út hvernig á að gera það. (Forseti hringir.) Það var ekki gert í dag.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)