138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Péturs H. Blöndals um gjaldfærslu og bókhaldsfærslu á vöxtum af Icesave-skuldbindingum verð ég að svara því til að hér er ekkert verið að fela. Það liggur alveg fyrir og búið er að ræða það opinberlega, með miklum hávaða raunar, hversu miklar þessar skuldbindingar og vextir eru þannig að hér er ekki verið að blekkja neinn. Ég kann hins vegar ekki svo vel á þá staðla sem notaðir eru við að útbúa þjóðhagsreikninga að ég geti svarað því til nákvæmlega á hverju þessi ákvörðun er byggð en augljóslega er ekki verið að fela neitt því að þjóðinni er vel kunnugt um þessar upphæðir allar, bæði heildarupphæðina og vaxtagreiðslurnar. Þær hafa verið raktar ítarlega bæði hér í ræðustól og í fjölmiðlum.

Varðandi það sem hv. þingmaður ræddi um séreignarsparnaðinn og tekjufærslur á honum þá finnst mér það áhugaverð hugmynd hvort ríkið ætti ekki að hafa með, kannski í skýringum eða viðaukum en alla vega hafa með í ríkisreikningi, væntanlegar tekjur af þáttum eins og skattfrestun á lífeyrisgreiðslum. Jafnframt að hafa með væntanleg gjöld vegna t.d. húsaleigusamninga til langs tíma eða einkafjármögnunar sem frestar gjaldfærslu útgjalda. Ég tel að það væri til bóta í ríkisreikningnum ef allt slíkt væri tilgreint, hvort sem það væri í skýringum eða tekið inn í meginmálið, og þær tölur sem almennt er vísað til þegar rætt er um fjárlagahallann.