138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi um daginn að það vantar miklu stærri tölur inn í skuldbindingar ríkissjóðs. Þar er t.d. krafan vegna B-deildar LSR, það eru 200 milljarðar. Einnig vil ég nefna Tryggingastofnun ríkisins, ekki hættum við að borga lífeyri einn daginn. Þar er gífurleg skuldbinding til allrar framtíðar, 30 milljarðar á ári eða meira sem við erum að borga og hvergi er fært að það sé framtíðarskuldbinding. Þetta tal um framtíðareignir og framtíðarskuldbindingar er mjög áhugavert fræðilega séð en að sjálfsögðu þurfum við að líta á hvað er fært til bókar.

Mig langaði líka að spyrja hæstv. ráðherra um atvinnuleysið. Hver maður sem er atvinnulaus kostar ríkissjóð en þegar hann fer að vinna gefur hann ríkissjóði tekjur. Ég tel að hver maður spari ríkissjóði 3–4 milljónir með aukinni atvinnu. Getur ekki verið skynsamlegt að hafa halla á ríkissjóði til þess að virkja fólk og gera það að skattgreiðendum?