138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Ég get heils hugar tekið undir síðasta punkt hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég tel einmitt að við vinnum að ákveðnu marki í þessum anda þótt vissulega megi deila um hversu langt er gengið. Með því vísa ég til þess að við í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn höfum tekið ákvörðun um að loka ekki fjárlagagatinu á einu ári eða í einu vetfangi heldur taka til þess um það bil fjögur ár. Ég tel að með því komum við í veg fyrir að atvinnuleysi vaxi mjög mikið umfram það sem það er núna. Við leyfum okkur því að ákveðnu marki að vera með halla á fjárlögum, meira að segja mjög umtalsverðan halla, til að kæla ekki efnahagslífið um of. Það hefði vitaskuld falið í sér almennt umtalsverðan vanda vegna atvinnuleysis og vanda í þeim skilningi að framleiðsluþættir þjóðfélagsins, sem eru ekki bara vinnuafl þótt það sé sá mikilvægasti, hefðu legið vannýttir.

Það hefði verið mjög gaman að hafa svigrúm til að ganga enn lengra í þessa átt og örva jafnvel atvinnulífið með frekari aðgerðum í ríkisfjármálum til þess að ekki bara draga úr atvinnuleysi heldur búa til meira af vörum og þjónustu sem er í sjálfu sér æskilegt en skilar auk þess umtalsverðum skatttekjum inn til þess opinbera. Ég held þó því miður að kaldi veruleikinn sé sá að svigrúm til að ganga mikið lengra í þessa átt en við gerum sé ekki til staðar. Þótt ég hefði mjög gjarnan viljað ganga lengra fæ ég ekki séð að það væri forsvaranlegt (Forseti hringir.) að hafa meiri halla en þetta til langs tíma.