138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom reyndar ekki fram hjá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hver skoðun hans var nákvæmlega á því hvað ylli því að málið var ekki klárað en ég skal gefa mína skoðun á því. Ég held að það sé alveg ljóst mál, það er vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gerst einhvers konar innheimtumaður fyrir Breta og Hollendinga sem er auðvitað fullkomið reginhneyksli. Einnig hefur komið fram, m.a. í máli seðlabankastjóra í sjónvarpsviðtali, að hann teldi að það væri þannig að sjóðurinn sjálfur vildi gjarnan klára þetta mál en þyrði það vart vegna ofríkis ESB. Það eitt og sér er heilmikið áhyggjuefni og segir manni að verið er að beita Ísland miklu harðræði. Verið er að koma mjög ósanngjarnt fram vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar höfum með samþykkt Alþingis nú í haust sýnt mikinn samningsvilja, teygt okkur mjög langt til að ná fram sáttum í máli þar sem liggur ekki fyrir með neinum óyggjandi hætti að okkur beri skylda til að greiða en við höfum sagt að við viljum ná samkomulagi og höfum gert það sem við höfum getað gert.

Þess vegna er ekki við það búandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli ekki klára þau mál sem hann hefur heitið að gera. Lengi vel var því haldið fram, bæði af sjóðnum og reyndar íslenskum ráðamönnum, að það væru einfaldlega tæknilegar ástæður fyrir því að ekki væri búið að taka mál Íslands fyrir hjá sjóðnum. Ég get vitnað til margra ummæla hæstv. ráðherra, bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra, sem trekk í trekk héðan úr þessari pontu sögðu: Það eru einungis tæknileg vandamál sem valda því að ekki er búið að afgreiða þetta og um leið og þau liggja fyrir þá mun ekki standa á afgreiðslu. Um þetta var margsinnis spurt af hálfu stjórnarandstöðunnar. Getur það verið að ekki sé hægt að klára þetta vegna þessa Icesave-máls? Svarið var alltaf nei.