138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[16:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það verður að láta á það reyna til fulls hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar sér að starfa með okkur. Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir: Heyrið þið ágætu Íslendingar, ef þið gangist ekki undir afarkosti Breta og Hollendinga munum við ekki starfa með ykkur. Þá er bara sú staða uppi. Ég trúi ekki að það verði niðurstaða málsins.

Við Íslendingar höfum með samþykkt Alþingis hér á dögunum sýnt að við höfum mikinn og ríkan samningsvilja í þessum málum. Við höfum sett upp með samþykki Alþingis aðferð eða aðferðafræði til að greiða, ef allt gengur eftir með bestu forsendum, alla þá skuld sem af Icesave-samningnum kann að hljótast. Ef ekki þá höfum við líka sagt: Það er eðlilegt að áætluninni sé breytt. Við Íslendingar sitjum ekki einir uppi með samninginn. Ég er sannfærður um að hv. þingmaður er mér sammála um að við Íslendingar höfum gengið mjög langt í þessum efnum. Ég er sannfærður um að innst í hjarta sínu er hann það.

Þá er spurningin: Ef við beygjum okkur ekki undir Breta og Hollendinga, alfarið og algerlega, getum við þá ekki unnið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Á það verðum við að láta reyna. Ég segi um leið þetta: Þegar menn skoða efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins er náttúrlega lagt upp með að allt sem skiptir máli sem við getum gert nú þegar í okkar eigin landi og á okkar eigin forsendum, t.d. að kalla inn erlenda fjárfestingu sem bíður við dyrnar en er stopp vegna þess að flokksfélagar hv. þingmanns hafa því miður gripið til aðgerða sem hafa gert það að verkum að framkvæmdir í Straumsvík og Helguvík sem hefðu skapað þúsundir starfa, milljarða í skatttekjur á næsta ári strax fyrir ríkið, hafa verið settar á ís. Það er það sem við eigum að gera, út á það ganga þessar tillögur. Ég skal glaður eiga orðastað við hv. þingmann um allt sem snýr að Icesave-málinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þetta er það sem skiptir máli í þessum umræðum.