138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur þegar hún ræðir um kerfisbreytingar varðandi lífeyrisgreiðslur. Það vita allir sem vilja vita, hvort sem það eru tryggingastærðfræðingar eða aðrir, að þetta hefur engin áhrif á sjóðfélaga. Þetta hefur engin áhrif á það hvað sjóðfélagi fær. Færa má rök fyrir því að það megi gera hlutina öðruvísi. Sterkustu rökin snúa væntanlega að hagsmunum lífeyrissjóðanna, að þeir hafi minna umleikis til að fjárfesta, en það hefur engin áhrif á sjóðfélaga hvenær skatturinn er tekinn, hvorki fyrir eða eftir. Það getur hver og einn séð sem vill skoða það.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um þátt sem kannski hefur ekki verið mikið ræddur hér í dag en hann snýr að aðhaldi í ríkisfjármálum. Nú spyr ég hv. þingmann, vegna þess að hv. þingmaður er fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra missti út úr sér að hann hefði kannski átt að byrja fyrr að taka á rekstri í ríkisfjármálunum og sagði að sveitarfélögin væru komin mun lengra. Ég var á ágætis fundi í gær með borgarstjóranum í Reykjavík sem upplýsti að Mosfellsbær hefði náð miklum árangri þegar snýr að gæðum í skólastarfi og sömuleiðis varðandi aðhald í rekstri. Hver grunnskólanemi kostar 800 þús. í Mosfellsbæ á meðan hann kostar 1,1 millj. í Reykjavíkurborg. Ég vildi þess vegna fá fram sjónarmið hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur — af því hér erum við að tala um lausnir, hvernig við eigum að leysa þennan vanda — um það hvernig menn hafa hagað málum í Mosfellsbæ þar sem hún stjórnaði með miklum glæsibrag áður fyrr (Forseti hringir.) og hvort hún geti deilt reynslu sinni (Forseti hringir.) með okkur hvað þessa þætti varðar.