138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að deila þessu með okkur. Ég held að það skipti nefnilega afskaplega miklu máli að við tölum hreint út þegar kemur að ríkisfjármálum. Hv. þingmaður lýsti reynslu hjá opinberum aðilum, nánar tiltekið sveitarfélaginu Mosfellsbæ sem heldur uppi mjög góðri þjónustu. Ég held að væri ágætt að heyra í stærri tölum við hverju hv. þingmaður tók sem bæjarstjóri á sínum tíma og hvernig var síðan skilið við það, því ég veit að það var gengið af mikilli ákveðni í þau mál. Þannig var skilið við málin og þannig er þjónustan enn þá í Mosfellsbæ eftir því sem ég best veit, hún er til fyrirmyndar.

Auðvitað hefði alltaf átt að gera þetta en staðreyndin er sú að við hefðum átt að byrja á þessu núna á þessu ári. Þeir aðilar sem eru í fjárlaganefnd vita og það hefur verið upplýst hér að við erum búnir að missa þetta dýrmæta ár. Stofnanir hafa farið fram úr fjárlögum á þessu ári og það þýðir að þær þurfa að taka það á sig á næsta ári. Með öðrum orðum, út af agaleysinu er búið að magna vandann. Sjúklingar munu finna fyrir því að þessi stjórn hafði ekki aga á ríkisfjármálunum. Það mun koma beint niður á sjúklingum og starfsmönnum og þeim sem þurfa á þjónustu að halda.

Ég held að þegar við ræðum þessi mál sé mjög gott að menn tali í dæmum og ég hefði áhuga á því að hv. þingmaður upplýsti okkur um það ef hún hefði einhverjar tölulegar staðreyndir um þá reynslu sem hún hefur (Forseti hringir.) af því stóra sveitarfélagi sem hún stýrði fyrir (Forseti hringir.) fáeinum missirum síðan.