138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og nokkrir þingmenn í dag fagna þeim sinnaskiptum sem hafa orðið hjá mörgum hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir eru loksins farnir að hlusta á góðar tillögur sem fram eru lagðar, og betra ef fyrr hefði verið vegna þess að ef lagt hefði verið af stað með suma af þeim þáttum í tillögum okkar sem lagðar eru fram í dag, sumar voru lagðar fram í vor, væri staðan strax önnur við að glíma. Ég fagna þeirri málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað. Hún er í allt öðrum anda en þegar ræddar voru í utandagskrárumræðu í dag hugmyndir framsóknarmanna um að leita eftir frekara láni í Noregi en þar var m.a. hv. þm. Helgi Hjörvar að hæðast að mönnum í ræðustól og það er ekki við hæfi. Það er ömurlegt að hlusta á slíkan málflutning eins og þá var viðhafður þegar menn leggja á sig mikla vinnu og eru að koma fram með alvörutillögur um lausnir á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir.

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst grípa til og liggja kannski að meginefni til í fjárlagafrumvarpinu og öðru því sem fram hefur komið frá henni á síðustu vikum er í raun eins og blaut tuska framan í þjóðina. Maður veltir því fyrir sér hvað ríkisstjórnarflokkarnir hafa eiginlega verið að hugsa allan þennan tíma. Þeir eru búnir að hafa um níu mánuði til að takast á við verkefnið og síðan koma fram tillögur sem munu auka á eymdina. Ég hef enga von, þær munu drepa atvinnulíf í dróma og leggja enn þyngri byrðar á heimilin í landinu. Ég veit ekki hvað þeim gengur eiginlega til að láta sér detta í hug að þetta sé eitthvað sem geti gengið upp við núverandi aðstæður. Við verðum að hafa miklu meiri sóknarkraft í hugmyndum okkar, miklu meiri sóknarkraft í aðgerðum okkar og um það snúast þær tillögur sem hér eru til umræðu. Þær eru ekki eins og þær sem lagðar hafa verið fyrir okkur af hálfu ríkisstjórnarinnar sem felast í því að auka byrðar heimila og fyrirtækja og eru í raun bara gamaldags aðferðafræði.

Uppbygging atvinnulífs er í uppnámi hvert á land sem litið er, t.d. í grunnatvinnugreinum okkar eins og sjávarútvegi þar sem í raun er að verða mjög mikið stopp vegna yfirlýsinga ríkisstjórnarflokkanna um aflamarkskerfið og aðgerða sem þeir boða þar fyrst og fremst. Í fjölbreyttum iðnaði okkar og stóriðju eru hlutirnir í uppnámi út af þeim fyrirhuguðu sköttum sem fyrirhugað er að leggja á þær greinar og það sama má segja um ferðaþjónustuna. Er þetta gott veganesti inn í komandi vikur og mánuði þegar við þurfum að vinna bug á mestu meinsemdinni í samfélaginu í dag, þ.e. atvinnuleysi? Vandræði okkar kristallast mjög mikið í því.

Það er alveg ljóst að sá margrómaði stöðugleikasáttmáli sem skrifað var undir snemma í sumar, kringum 25. júní, hefði aldrei verið undirritaður af hálfu aðila vinnumarkaðarins ef á borðinu hefðu legið þær ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið og sent frá sér. Á ég þar ekki síst við ákvarðanir hæstv. umhverfisráðherra. Það sama má líka segja um þau atriði sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, enda er það svo að þessi stöðugleikasáttmáli, grundvöllur hans, hangir á bláþræði. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið það út að líf hans sé í raun í höndum ríkisstjórnarinnar og miðað við núverandi aðstæður sé hann dautt plagg en ekki eins og hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, sagði, þ.e. að hann stæði eins og stafur á bók, hann sagði þetta í umræðu á þinginu í gær.

Það sem er mikilvægast fyrir okkur núna, auk eflingar atvinnulífs, er að auka ekki álögur á heimili og fyrirtæki. Það er framtíðarsýn okkar að drepa ekki allt í dróma.

Í þessari þingsályktunartillögu sem er mjög víðtæk, mikil og góð vinna hefur verið lögð í hana og margir komið að þeirri vinnu, er lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku samfélagi. Lagður er grunnur að því að gefa von og væntingar heimila og fyrirtækja um að hér megi byggja upp, gefin er von til þeirra sem í dag standa í mestu vandræðunum og fólks sem horfir til þess að flytja úr landi af því að það hefur engar framtíðarvonir. Við gerum okkur vel grein fyrir því að hagræða þarf verulega í rekstri ríkisins og það er svigrúm til þess. En við höfnum leið ríkisstjórnarinnar í þeim málum og viljum að farið verði í þetta af mikilli kostgæfni og reynt verði að skerða grundvallarþjónustuna í samfélaginu sem minnst.

Í umræðunni í dag kom fram að samtryggingarkerfið væri eitt það mikilvægasta sem við búum við og það er alveg rétt. Þar er samt víða örugglega hægt að líta þar til og gera betur og nýta betur þá fjármuni sem í það eru settir. En einföld leið hæstv. ríkisstjórnar var að byrja að skera niður hjá hópi aldraðra og öryrkja á vordögum, það var hennar fyrsta verk, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað sem mest um í gegnum tíðina að séu skjólstæðingar þeirra. Svona er það stundum að „þeim var ég verst er ég unni mest“, á pappírnum alla vega.

Þær aðgerðir og tillögur sem við boðum gefa svigrúm til mildari aðgerða og lögð er áhersla á þá forgangsröðun. Síðan er hin umtalaða kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrisinngreiðslna sem er í raun grunnurinn að því að nálgast skattálögurnar á annan hátt. Margir eru búnir að fara yfir þetta og skrifaðar hafa verið lærðar greinar um þetta mál. Það er fásinna að við sjálfstæðismenn séum að setja fram svo vel undirbúið mál án þess að hugsa fyrir því hvort þetta hafi áhrif á lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar — þetta hefur ekki áhrif á lífeyrisþega, þetta hefur ekki áhrif á fyrirtæki og ekki heldur á heimilin í landinu.

Við viljum líka að umhverfi atvinnurekstrar verði bætt og það skiptir öllu máli núna. Það er alveg með ólíkindum það skemmdarverk sem þegar hefur verið unnið, að kannski skuli sú helsta vonarstjarna sem við eigum í vændum núna, álverið í Helguvík sem á að skapa nokkur þúsund störf á næstunni, vera í algerri óvissu. Menn segja sem til þekkja að það muni ekki lifa þessar hremmingar af nema í örfáa daga til viðbótar. Þá verði hreinlega að blása það verkefni út af borðinu. Ekki er líklegt að aðrir verði tilbúnir að koma og hjálpa þar til.

Tillögur okkar geta skilað því sem þarf í ríkissjóð og gott betur vegna þess að þær tekjur sem skapast með aukningu aflamarks eru ekki reiknaðar þar inn í, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á í ræðu sinni fyrr í dag. Það er alveg stórkostlegur ávinningur af því. Við höfum áður beitt þeirri aðferð að fara í hægfarari uppbyggingu fiskstofna til að styrkja efnahagslífið. Þetta er sjálfsögð til að beita núna og alveg bráðnauðsynleg. Hún mun gefa nýja von, nýja von úti um allt land, von og bjartsýni þar sem yfirvofandi ógn um aukna skattbyrði heimila og fyrirtækja verður ýtt úr vegi og fólk fær einhverja sýn sem við getum unnið eftir. Auknar skatttekjur munu koma vegna vaxandi atvinnuleysis og minni atvinnuleysisbóta. Þetta verða skýr skilaboð og hvatning til erlendra jafnt sem innlendra fjárfesta til að koma af fullum krafti inn í atvinnulífið og nýta þau tækifæri sem við okkur blasa. Það sem meira er, aðgerðir af þessu tagi mundu sætta aðila vinnumarkaðarins, þær mundu gera það að verkum að sátt yrði á vinnumarkaði, aðilar mundu ná saman um að taka þetta stríð saman en það er núverandi ríkisstjórn að setja í uppnám.