138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg í þessa umræðu og ég heyri að hann deilir með okkur skoðunum. Hann kemur inn á að honum finnist vanta frekari útfærslur á skuldavanda heimilanna í þessum tillögum okkar sjálfstæðismanna en margoft hefur komið fram í okkar ræðum í dag að það er mjög brýnt að gera það strax. Eins og hv. þm. fögnum við þessum tillögum sem félagsmálaráðherra kynnti nú á dögunum, en betur má ef duga skal.

Þegar við unnum að þessari tillögu gekk okkur mjög erfiðlega að fá upplýsingar um nákvæma stöðu hvernig þetta var. Eitt sem mig langar að velta upp við hv. þingmann er, vegna þess að nú vitum við að bankarnir færa húsnæðislán heimila frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, hvort hann hafi einhverjar upplýsingar um á hvernig afskriftum það er gert. Maður heyrir tölur alveg frá 20 upp í 40% og jafnvel hærra. Okkur finnst eðlilegt að það fengi þá að ganga alla leið. Hefur hv. þingmaður einhverjar upplýsingar um með hvaða hætti það verður gert?

Í tillögum okkar er líka fjallað um að auka aflaheimildir sem geta skaffað allt að 100 milljörðum inn í hagkerfið strax án þess að taka neina áhættu í því að ganga á fiskstofnana heldur hægja á uppbyggingunni. Hver er afstaða hv. þingmanns til þess? Eins tek ég heils hugar undir með honum með að niðurskurður af þessu tagi sem verður að fara í og skattahækkanir á sama tíma eru einfaldlega hlutur sem gengur ekki upp.

Eins langar mig að velta því upp við hv. þingmann að manni sýnist sem svo að niðurskurðurinn gæti orðið hastarlegri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Ég hitti framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi í dag og hann upplýsti mig um að gerð væri 13% krafa um niðurskurð á sjúkrahúsinu á Blönduósi þegar talað var um 5% (Forseti hringir.) í heilbrigðisþjónustunni.