138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er m.a. gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á námskostnaði verði lækkað um 30%. Það er nefnilega víða höggvið að landsbyggðinni í þessu frumvarpi. Ég gagnrýni ekki að allir þurfi að taka ákveðna hluti á sig í þessu ástandi en það að byrja þar, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns — menn eru búnir að eyða tugum ára í að ná einu, tveimur opinberum störfum og þá eru þau það fyrsta sem er tekið. Það eru sýslumenn, dómarar, Vinnumálastofnun, Fæðingarorlofssjóður, samgöngur, vegaframkvæmdir, þetta er allt undir, því miður. Þemað í frumvarpinu er mikið í þessa átt.

Ég ætla að nefna eitt dæmi áður en ég fer úr þessum ræðustól. Einstaklingur sem rekur fyrirtæki á sinni kennitölu skuldaði í kringum 60 millj. kr. fyrir skömmu síðan en hefur lán upp á 160–170 millj. í dag á sinni kennitölu. Heimilið er undir, þetta er þannig rekstur. Það eru engin úrræði í boði fyrir þennan ágæta einstakling önnur en að fresta greiðslum í smá tíma, í þrjú ár, og treysta svo á að biðreikningurinn og það sem eftir stendur verði afskrifað. Þá spyr ég: Hvaða líkur eru á því að það verði gert þegar hollenskir og þýskir tannlæknar verða búnir að eignast bankana?