138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

lausn Icesave-deilunnar.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar EES-samningurinn var gerður stóðu að honum 12 ríki Evrópusambandsins og 6 ríki EFTA-ríkjanna. Það var ekki byggður inn í þann samning neinn strúktúr, enginn farvegur fyrir lagalegan ágreining ef hann skyldi koma upp, vegna þess að aðilar samningsins voru sammála um að báðir hefðu pólitíska hagsmuni af því að leiða slíkan ágreining til lykta. Síðan hefur margt gerst. Evrópusambandsríkjunum hefur fjölgað úr 12 í 27 og EFTA-ríkjunum að sama skapi fækkað, eru ekki lengur 6 heldur 3. Nú eru í Evrópusambandsríkjunum 500 milljónir manna og EFTA-megin eru bara 5 milljónir. Þegar upp kemur ágreiningur, eins og í Icesave-málinu, þá eru ekki lengur til staðar þeir pólitísku hagsmunir sem menn sáu fyrir að mundu verða grundvöllur allra lausna í upphafi heldur neyta menn aflsmunar eins og gert hefur verið í Icesave-málinu.

Við höfum frá upphafi í því máli haldið til haga lagalegri stöðu okkar, þeim skilningi okkar að við séum ósammála lagalegri túlkun Hollands og Bretlands og Evrópusambandsríkjanna og þó að fallið væri frá þeim rétti í Icesave-samningunum, sem kynntir voru snemma í sumar, þá breytti þingið frumvarpinu um ríkisábyrgðina þannig að ef reyna mundi á þetta lagalega ágreiningsefni þá mundum við Íslendingar geta notið góðs af því, þá gæti Alþingi takmarkað ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. En sú niðurstaða sem ríkisstjórnin er að kynna núna er í grundvallaratriðum önnur. Alþingi er að gefa frá sér, samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar, réttinn til að takmarka ríkisábyrgðina. Ef leyst verður úr þessum ágreiningi leiðir það einungis til viðræðna. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað réttlætir þessa kúvendingu í málinu? Hvers vegna var það skoðun hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarliðanna allra í sumar að slík niðurstaða hlyti að leiða til þess að Alþingi ætti að takmarka ábyrgð sína en núna á einungis að setjast yfir tebolla?