138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

jöfnun námskostnaðar.

[15:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að þessi liður, jöfnunarsjóður námsmanna, sem er ætlaður til þess að styrkja námsmenn í dreifbýli til að geta sótt nám í framhaldsskóla, er lækkaður nokkuð harkalega milli ára. Skýringuna á því má rekja til þess að sjóðurinn var hækkaður mjög verulega á árinu 2009 frá árinu 2008 og þegar farið var í fjárlagagerð þessa árs var sérstaklega litið til liða sem höfðu hækkað mjög mikið milli þessara tveggja ára. Annar liður sem er undir sömu sök seldur er Kvikmyndasjóður sem hefur verið talsvert til umræðu í þessum sal.

Ég hef sagt það hér að mér finnst nokkuð til í þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram, að þarna sé gengið allhart fram. Ef við horfum á tölurnar um jöfnunarsjóðinn þá fékk hann 525 millj. kr. í reikningnum eða við uppgjör ársins 2008, fór upp í 700 millj. kr. á fjárlagafrumvarpi 2009, sem er auðvitað allmikil hækkun, og er svo tekinn niður í 472 millj. kr. núna þannig að hann er kominn rétt fyrir neðan reikning 2008. Ég held að við þurfum að skoða þessa tvo liði sérstaklega sem eru teknir prósentulega allmikið niður frá fjárlagafrumvarpi 2009 og reyna að ná aðeins einhverjum minni niðurskurði á þessa tvo liði. En það liggur líka fyrir að það er ekkert aukafjármagn fyrir hendi. Ég hef sjálf rætt að það gæti verið borð fyrir báru því að umtalsverðum fjármunum er varið til að mæta fjölgun námsmanna á háskólastigi. Þetta þarf fjárlaganefnd að fara yfir. Ég hef reyndar rætt það bæði við fulltrúa í menntamálanefnd og fjárlaganefnd að þau taki þessi mál til sérstakrar skoðunar en skýringuna er sem sagt að finna þarna, að þessi liður hækkaði mjög á milli áranna 2008 og 2009.